Félag grunnskólakennara og Skólastjórafélag Íslands boðuðu í dag verkföll í Grunnskólanum í Hveragerði og Grunnskólanum í Þorlákshöfn frá 3. mars næstkomandi, hafi samningar ekki náðst í yfirstandandi kjaradeilu.
Félagsfólk í þessum félögum, sem starfar hjá Sveitarfélaginu Ölfusi og Hveragerðisbæ samþykkti verkfallsboðunina með yfirgnæfandi meirihluta. Verkfallið nær einnig til félagsfólks sem starfar á skólaskrifstofum sveitarfélaganna.
Verkföllin verða tímabundin og standa til og með 21. mars.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kennarasambandi Íslands.