Í byrjun desember hófust framkvæmdir við nýja brú yfir Múlakvísl í Mýrdalshreppi. Brúin sem var þar áður eyðilagðist í hlaupi úr Kötlu í júlí árið 2011.
Bráðabirgðabrú var sett upp nokkrum dögum eftir hlaupið og er hún enn í notkun.
„Þetta er bara rétt komið af stað,“ segir Svanur Bjarnason, svæðistjóri Vegagerðarinnar á Suðurlandi. Búið er að reka niður straura undir eina brúarundirstöðu og nú er unnið að því að reka niður staura undir þá næstu. „Þessi niðurrekstur hefur gengið vel,“ bætir Svanur við.
Ekki er enn búið að bjóða út framkvæmdina við brúna og varnargarða. Stefnt er að því að það verði gert með vorinu.
Nýja brúin á að verða hærri og breiðari en sú sem fyrir var, en að öðru leyti svipuð.Ætlað er að opnað verði fyrir umferð yfir nýju brúna í júní á næsta ári.