Verktækni bauð lægst í nýtt hringtorg

Hringtorgið er á mótum Eyrarbakkavegar, Víkurheiðar og Hólastekks. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Verktækni ehf í Reykjavík bauð lægst í gerð nýs hringtorgs á Eyrarbakkavegi, á gatnamótum Víkurheiðar og Hólastekks. Hólastekkur er ný gata á Selfossi sem liggur sunnan við hverfið í landi Björkur.

Tilboð Verktækni hljóðaði upp á 134,9 milljónir króna og er 74,9% af áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar, sem er 180 milljónir króna.

Smávélar á Selfossi áttu næst lægsta tilboðið, 137,5 milljónir króna, Berg verktakar buðu 148,6 milljónir, Háfell 153,6 milljónir, Gleipnir verktakar 156 milljónir og Borgarverk 176,8 milljónir króna.

Auk hringtorgs er um að ræða göngu- og hjólastíg og innifalið í verkinu er færsla og endurnýjun á vatnsveitu-, hitaveitu-, raf- og fjarskiptalögnum. Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Sveitarfélagsins Árborgar og veitufyrirtækja.

Verkinu á að vera lokið þann 1. september næstkomandi en umferð skal þó vera hleypt á endanleg mannvirki eigi síðar en 1. júlí.

Fyrri greinRannsóknarboranir í Reynisfjalli
Næsta greinGuðbrandur vill leiða Viðreisn