Verktakinn þarf á kraftaverki að halda

Stekkjaskóli á Selfossi. Ljósmynd/Jón Sveinberg Birgisson

Skólasetning í nýjum Stekkjaskóla á Selfossi verður eftir rétt rúman mánuð, þann 24. ágúst. Þessa dagana er verið að vinna að byggingu færanlegra kennslustofa við skólann sem hýsa munu skólastarfið á fyrsta ári hans.

Á síðasta fundi sínum í lok júní bókaði eigna- og veitunefnd Sveitarfélagsins Árborgar áhyggjur sínar af framgangi verksins en þá voru tvær kennslustofur af tíu komnar á sökkul. Nefndi taldi brýnt að tímasetning verkloka myndi standast, sem samkvæmt samningi eru þann 31. júlí næstkomandi.

Eðlilegt að foreldrar hafi áhyggjur
Í dag eru fimm stofur af tíu komnar á staðinn og foreldrar sem sunnlenska.is hefur rætt við hafa áhyggjur af stöðu mála. Tómas Ellert Tómasson, formaður eigna- og veitunefndar Árborgar, sagði í samtali við sunnlenska.is að það væri ósköp eðlilegt að foreldrar hafi áhyggjur.

„Mér er þó tjáð að þrjár stofur til viðbótar séu væntanlegar á mánudagskvöldið. Þá verða komnar átta af tíu en þó að það verði staðan þá er mestöll innivinna eftir í þessum húsum, sem er áhyggjuefni. Það gerast oft kraftaverk á síðustu metrum byggingaframkvæmda og mér sýnist á öllu, eins og staðan er í dag, að verktakinn þurfi einmitt á einu slíku að halda hvað varðar að ljúka þessu verki á tíma,“ segir Tómas Ellert. Hann bætir við að samkvæmt sínum upplýsingum sé verktakinn, Snorri ehf, bjartsýnn á að það takist með aukamannskap sem unnið hafi að verkinu undanfarið.

Um forgangsmál að ræða
„Ég deili þó áhyggjum með foreldrum um stöðu mála og er á engan hátt tilbúinn til að treysta á að kraftaverk gerist í þessum efnum og hef því óskað eftir fundi um málið með stjórnsýslunni til að fara yfir stöðuna og finna viðunandi lausnir á húsnæðismálum ef verktakinn nær ekki að klára verkefnið á tíma. Sá fundur verður ekki síðar en á mánudaginn að minni ósk, þó flestir séu í sumarfríum. Hér er um forgangsmál að ræða sem enginn afsláttur verður gefinn af,“ segir Tómas Ellert ennfremur.

Fyrri greinVeigar og Dagur með þrjú gull
Næsta greinSlys í svartaþoku á Hellisheiði