Verslunin Ós hættir rekstri í dag, sléttum 50 árum eftir að Franklín Benediktsson, kaupmaður, hóf verslunarrekstur í Þorlákshöfn, þann 2. október 1965.
Franklín og kona hans, Hallfríður Höskuldsdóttir, eru líklega einir af síðustu kaupmönnunum á horninu á landsvísu en þau hætta nú rekstri sökum aldurs.
Fyrst rak Franklín bensínstöð og sjoppu annarsstaðar í þorpinu en lengst af hefur fjölskyldan rekið Verslunina Ós á Knarrarbergi 2.
Í tilefni af þessum tímamótum ætla vinir og vandamenn Franklíns og Haddýar að hittast við verslunina kl. 18 í dag og eru bæjarbúar og aðrir velunnarar hvattir til að mæta.