Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðurland og Suðausturland sem gildir frá morgni til kvölds á þriðjudag.
Kröpp lægð kemur upp að landinu með suðaustan stormi og rigningu í nótt en suðvestan stormi eða roki og skúrum, slydduéljum eða éljum í fyrramálið.
Gert er ráð fyrir 18-25 m/sek á Suðurlandi og er gul viðvörun í gildi frá klukkan 7 í fyrramálið til kl. 21 á þriðjudagskvöld. Búast má við mjög snörpum vindhviðum, staðbundið yfir 35 m/sek. Varasamt verður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind að vera á ferðinni. Búast má við snjókomu til fjalla og því eru afmarkaðar samgöngutruflanir líklegar. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.
Á Suðausturlandi gildir viðvörunin frá klukkan 13 á þriðjudag til klukkan 4 aðfaranótt miðvikudags. Þar verður vindhraðinn enn meiri, 20-25 m/sek vestan stormur. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll staðbundið yfir 40 m/sek, einkum í kringum Mýrdals- og Vatnajökul.