Nú fyrir jólin kemur út barnabókin „7 venjur fyrir káta krakka“ í þýðingu Ernu Jóhannesdóttir.
„Bókin byggir á hugmyndafræði Franklin Covey. Í henni eru sjö venjur kynntar fyrir lesandanum í gegnum skemmtilegar sögur og persónur. Venjurnar eiga meðal annars að kenna börnum tímalaus og hagnýt gildi eins og ábyrgð, framsýni, virðingu, samvinnu, sköpun og jafnvægi,“ segir Erna sem starfar sem kennari í Sunnulækjarskóla á Selfossi en er sem stendur í fæðingarorlofi.
„Í bókinni eru sjö sögur, ein fyrir hverja venju. Í lok hverrar sögu eru svo umræðupunktar fyrir foreldra og spurningar sem hægt er að ræða við börnin sín eða nemendur. Einnig eru gefnar hugmyndir að því hvernig hægt sé að tileinka sér venjurnar í litlum skrefum,“ segir Erna en þetta er fyrsta bókin sem hún þýðir, en hún er með BA gráðu í ensku.
„Þessar venjur eru eitthvað sem bæði fullorðnir og börn geta tileinkað sér og nýtt sér í sínu daglega lífi. Mér finnst bókin líka gefa fullkomið tækifæri fyrir foreldra að setjast niður og lesa með börnunum sínum og ræða við þau um venjurnar og lífið almennt,“ segir Erna og bætir því við að bókin sé fyrir alla fjölskylduna.
Instagram kom henni á sporið
Sagan á bak við það hvernig það kom til að Erna fór að þýða bókina er nokkuð óvenjuleg. „Þetta á kannski eftir að hljóma undarlega en ég var að skoða samfélagsmiðilinn Instagram og rakst á mynd frá Elínu Maríu Björnsdóttur, alþjóðlegum ráðgjafa. Ég skoðaði fleiri myndir frá henni og sá að hún var út um allan heim að halda fyrirlestra og á myndunum var myllumerkið #theleaderinme,“ segir Erna.
Erna fór að skoða hvað The Leader in Me stæði fyrir og sá þá að það er hugmyndafræði sem er notuð í kennslu um allan heim. „Þessi hugmyndafræði á uppruna sinn hjá Franklin Covey sem er alþjóðafyrirtæki sem sér um ýmis konar þjálfun og ráðgjöf fyrir fyrirtæki og skóla. Ég skoðaði heimasíðu Franklin Covey á Íslandi og sá margt mjög flott kennsluefni frá þeim sem var allt á ensku.“
„Ég ákvað að senda þeim fyrirspurn um hvort þau stefndu að því að þýða kennsluefnið og ef svo væri þá væri ég tilbúin að taka það verkefni að mér. Það vildi svo skemmtilega til að þau voru einmitt að stefna að því að þýða þessa bók og ég var fengin í verkið,“ segir Erna en það er útgáfan Vegferð ehf sem gefur út bókina.
Fallegur og góður boðskapur
„Mér finnst bestu barnabækurnar þær sem búa yfir góðum boðskap og fróðleik. Bækur sem gefa foreldrum tækifæri til þess að ræða innihald þeirra og eiga notalega stund með börnum sínum. Bókin er nefnilega meira en bara sjö sögur fyrir börn. Hún inniheldur góðan boðskap til barna sem þau geta tekið með sér sem veganesti út í lífið á sínum forsendum,“ segir Erna.
Að sögn Ernu er boðskapurinn í bókinni bæði fallegur og góður. „Boðskapurinn er í rauninni að maður eigi alltaf að gera sitt besta og að maður eigi að leggja rækt við sjálfan sig og náungann. Við græðum svo mikið á því að hjálpast að og vinna saman,“ segir Erna og bætir því við að vinnuferlið í kringum bókina hafi verið mjög skemmtilegt og fróðlegt.
Næstkomandi laugardag verður útgáfuteiti fyrir bókina í Pennanum Eymundsson í Smáralind frá kl. 13-15 og vonast Erna til að sjá sem flesta. Bókina verður hægt að nálgast í Bókakaffinu á Selfossi og öllum helstu bókabúðum.