Árborg vann góðan 4-0 sigur á Ungmennafélaginu Mána frá Hornafirði í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í dag.
„Ég var heilt yfir mjög sáttur með leikinn. Ég var ánægður með spilið, baráttuna í liðinu og liðsheildina. Menn voru meira að hugsa um samherja sem voru í betra færi heldur en eigin hagsmuni. Við létum boltann flæða og liðið nýtti styrkleika sína á sem bestan hátt í dag, þannig að ég er mjög ánægður,“ sagði Guðjón Bjarni Hálfdánarson, þjálfari Árborgar, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Árborgarar voru meira með boltann í fyrri hálfleik en Mánamenn fengu sitt hættulegasta færi í leiknum strax á 7. mínútu. Sóknarmaður þeirra slapp þá innfyrir Árborgarvörnina og framhjá Axel Sæmundssyni markverði, en skaut í hliðarnetið.
Sóknir Árborgar þyngdust þegar leið á fyrri hálfleikinn og á 25. mínútu átti Tómas Hassing skalla í þverslána á marki Mána eftir hornspyrnu. Ísinn brast svo fjórum mínútum síðar þegar Tómas lagði boltann með kassanum fyrir Daníel Inga Birgisson sem þrumaði knettinum í netið utan við vítateiginn.
Á 40. mínútu komst Árborg í 2-0 þegar Ólafur Tryggvi Pálsson skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu. Tvö núll í hálfleik og Árborg með góð tök á leiknum.
Það tók Magnús Helga Sigurðsson aðeins 21 sekúndu að skora í síðari hálfleik þegar hann fékk boltann á vítateignum eftir góða sendingu frá Tómasi Kjartanssyni. Kjartansson var svo aftur á ferðinni rúmri mínútu síðar en var þá felldur í teignum og vítaspyrna dæmd. Ingimar Helgi Finnsson fór á vítapunktinn en skaut boltanum yfir.
Meira jafnvægi var með liðunum í seinni hálfleik en Mánamenn ógnuðu marki Árborgar þó mjög lítið. Árborgarar fengu að minnsta kosti þrjú góð færi áður en Magnús Helgi innsiglaði sigurinn með öðru marki sínu á 85. mínútu. Markið var einkar glæsilegt, beint úr aukaspyrnu við vítateigslínuna.
Þetta var fyrsti leikur Árborgar í deildinni í sumar en næsti leikur liðsins er stórleikur gegn Stokkseyri á útivelli á fimmtudagskvöld.