Söfnun Íslenskrar erfðagreiningar á lífsýnum Íslendinga stendur nú yfir og hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg verið fengin til samstarfs við þá, til að safna sýnunum.
Skiptar skoðanir hafa verið um aðferðarfræðina við söfnun lífsýnanna en Inga Birna Pálsdóttir, formaður Björgunarfélags Árborgar, segir að allir þeir sem fengu boð um þátttöku hafi val um það hvort þeir taka þátt eða ekki.
„Ef fólk ákveður að taka ekki þátt er einfaldlega sagt nei þegar við komum. Með því að segja nei, er ekki verið að neita að styrkja björgunarsveitina, heldur einungis verið að neita að taka þátt í söfnuninni. Ýmsar raddir hafa gagnrýnt Íslenska erfðagreiningu fyrir að vera að nota björgunarsveitirnar í þetta átak sitt, en eins og aðrir, þá tökum við sjálfstæða ákvörðun um að vera með í átakinu. Við tökum þetta að okkur sem vinnu eins og svo margt annað sem við gerum og getur þetta verið góð fjáröflun fyrir okkur,“ segir Inga Birna og bætir við að þátttakendur í söfnuninni þurfi ekki að borga björgunarsveitunum fyrir að vera með, það geri Íslensk erfðagreining.
„Ef þátttakendur eru ekki heima þegar við komum, geta þeir komið sýnunum í næsta björgunarsveitarhús eða á næsta pósthús. Við fáum greitt fyrir alla sem taka þátt, hvort sem við sækjum það eða pósturinn fari með það,“ segir Inga Birna.
Björgunarfélag Árborgar mun verða á ferðinni á Selfossi til að safna lífsýnum í kvöld, föstudag, síðdegis á sunnudag og á mánudagskvöld.
„Við vonumst til að ná öllum húsunum á þeim tíma en verðum bara að sjá hvernig gengur. Við vonumst því til að fólk taki vel á móti okkur þegar við komum, jafnvel þótt það vilji ekki vera með í söfnuninni,“ sagði Inga Birna að lokum.