Viðar Helgason, oddviti Bjartrar framtíðar í Árborg, baðst lausnar á störfum sem bæjarfulltrúi á fundi bæjarstjórnar Árborgar í vikunni.
Í samtali við sunnlenska.is sagði Viðar að hann og kona hans, Hulda Gísladóttir, væru að flytja á höfuðborgarsvæðið í sumar og þar af leiðandi geti hann ekki sinnt starfi bæjarfulltrúa lengur. Kjörnir fulltrúar þurfa að eiga lögheimili í sveitarfélaginu.
Á fundi bæjarstjórnar var Viðari þakkað fyrir gott samstarf og góð kynni. Hann þakkaði sjálfur fyrir samstarfið og óskaði bæjarstjórninni góðs gengis.
Björt framtíð á einn fulltrúa í bæjarstjórn Árborgar. Eyrún Björg Magnúsdóttir, framhaldsskólakennari og stjórnsýslufræðingur, mun nú taka sæti í bæjarstjórn og Már Ingólfur Másson verður varamaður hennar.
Eyrún verður einnig aðalmaður á aðalfundi SASS, í fulltrúaráði Héraðsnefndar Árnesinga og á aðalfundi Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, auk þess sem hún verður varamaður á Landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga.