Stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra heimsótti dvalar- og hjúkrunarheimilið Kirkjuhvol á Hvolsvelli í síðustu viku.
Sveitarfélagið Rangárþing eystra hefur sótt um styrk í sjóðinn vegna uppbyggingar við Kirkjuhvol en heimamenn telja brýna þörf vera á stærra og betra rými þar sem núverandi aðstaða og aðbúnaður í eldri álmu heimilisins hentar alls ekki starfseminni.
Heildarkostnaður við viðbygginguna er áætluð um 309 milljónir og leggja forsvarsmenn sveitarfélagsins því áherslu á að sjóðurinn veiti verkefninu styrk.
Sveitarstjóri, oddviti, skipulags- og byggingarfulltrúi og hjúkrunarforstjóri Kirkjuhvols tóku á móti hópnum, fóru yfir umsóknina og síðan gekk hópurinn um Kirkjuhvol og skoðaði aðstæður.