Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur sett Víði Reynisson í stöðu lögreglufulltrúa tímabundið í eitt ár til að sinna almannavörnum í umdæmi embættisins og mun hann hefja störf þann 24. ágúst nk.
Víðir mun koma að heildarskipulagi málaflokksins, þjálfun og menntun allra viðbragðsaðila, umsjón æfinga, gerð viðbragðsáætlana og annarra aðgerða til að tryggja frekar öryggi íbúa og ferðamanna í umdæminu.
Ráðning hans til starfans er gerð í samvinnu við sveitarfélögin í umdæminu og mun hann jafnframt aðstoða þau við að styrkja sína innviði komi til almannavarnavár.
Í tilkynningu frá lögreglunni segir að það verði að teljast mikil fengur að hafa fengið Víði til starfa enda fáir eða engir sem hafa meiri þekkingu og reynslu á sviði almannavarna en hann.