Stefnt er á að fyrsti áfangi nýrrar Hamarshallar verði tilbúinn seinnipart árs 2023. Verður nýja höllin úr „föstum efnum“ og kemur í stað loftborna hússins sem fauk í óveðri þann 22. febrúar síðastliðinn.
Ekki eru þó allir sammála um ágæti þess að nýja höllin verði úr föstum efnum, það er fulleinangrað stálgrindarhús. Snýr gagnrýnin einna helst að kostnaðarliðnum en töluvert dýrara er að reisa hús af þessari tegund.
Sjálfstæðismenn sem voru í meirihluta á síðasta kjörtímabili vildu endurreisa Hamarshöllina í sömu mynd en nýr meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar vildi kanna aðrar leiðir.
Mikilvægt að byggja varanlegt íþróttamannvirki
Að sögn Jóhönnu Ýrar Jóhannsdóttur, oddvita Framsóknar í Hveragerði og forseta bæjarstjórnar, liggja margvíslegar ástæður að baki þeirrar ákvörðunar nýja meirihlutans að vilja reisa stálgrindarhús. „Við viljum horfa til framtíðar og byggja varanlegt hús. Vissulega er það kostnaðarsamari aðgerð en engu að síður skynsamleg. Loftborið hús, þó það hafi nýst vel þann tíma sem það stóð, er áhættufjárfesting, það segir sagan okkur,“ segir Jóhanna Ýr, í samtali við sunnlenska.is.
Jóhanna segir að bæjarstjórninni beri að leita að varanlegri leiða og byggja upp framtíðar íþróttamannvirki Hveragerðinga í áföngum. „Við ætlum að fjárfesta í ungum sem öldnum til langs tíma en ekki skapa aðstæður sem gætu horfið á einni nóttu, eins og gerðist í febrúar. Í nágrannalöndum eru vinir okkar þar að lenda í því að þessi hús eru að falla. Við viljum ekki lenda í þessum aðstæðum aftur og því byggjum við varanlegt íþróttamannvirki.“
Ódýrara til lengri tíma séð
Bæjarfulltrúar D-listans í Hveragerði hafa gagnrýnt meirihlutann fyrir þessi nýju áform og óttast að sveitarfélagið verði skuldsett um of. Jóhanna segir það vera óþarfa áhyggjur.
„Sú leið sem samþykkt hefur verið að fara í kostar vissulega meira, til skamms tíma, heldur en loftborið hús. Til lengri tíma litið mun þessi fjárfesting verða ódýrari fyrir okkur. Það sýnir sig á því að við erum ennþá að borga af húsi sem er ekki til staðar. Við urðum fyrir miklu tjóni og við viljum leita allra leiða til að koma í veg fyrir að það gerist aftur, við viljum ekki lenda í því að þurfa að byggja upp íþróttamannvirki upp á nýtt. Því miður er það svo að fjölmörg dæmi eru um að loftborin hús séu ekki að endast nema 2-7 ár. Nú byggjum við Hvergerðingar varanlegt framtíðaríþróttamannvirki.“
„Það er búið að samþykkja að fara með fyrsta áfanga í alútboð og verður sá áfangi fjármagnaður með tjónabótum ásamt lántöku. Þá eru mörg tækifæri framundan til að auka tekjur bæjarins, til að mynda með úthlutun lóða og fleiri verkefna sem eru í farvatninu.“
Fjárfesting í íþróttastarfi bæjarins
Jóhanna segir að það sé mikilvægt fyrir allt íþróttastarfið í Hveragerði að þar sé samkeppnishæf íþróttaaðstaða. „Það er mikill metnaður og skýr framtíðarsýn hjá bæjaryfirvöldum að byggja upp öflugt sveitarfélag og hluti af þeirri sýn er að fjárfesta í íþróttastarfi bæjarins með framtíðaraðstöðu fyrir íbúana. Einnig hefur Hvergerðingum fjölgað mjög mikið undanfarin ár og ekkert lát virðist á því og því er mikilvægt fyrir íbúana að eiga samkeppnishæfa íþróttaaðstöðu, sambærilega og í öðrum sveitarfélögum,“ segir Jóhanna að lokum.