Sigurbjörg Hróbjartsdóttir er 19 ára Selfyssingur sem stundar nám á opinni línu við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Hún er ein 36 nemenda sem eiga að brautskrást sem stúdent í desember næstkomandi en yfirstandandi kennaraverkfall hefur sett útskriftina í uppnám.
Blaðamaður sunnlenska.is hitti Sigurbjörgu í FSu á blautum og gráum mánudegi þar sem hún tjáði sig um áhrif verkfallsins á nemendur skólans.
Setur allt úr skorðum
„Ég átti að útskrifast núna um jólin og ætlaði svo að fara að vinna eftir áramót. Ég ætlaði þá að bæta við mig í vinnu. Þetta skiptir svo sem ekki máli fyrir mig, ég er með góða yfirmenn sem eru frekar sveigjanlegir og ég get talað við þau ef ég þarf að halda áfram með skólann í janúar. Þannig að ég er kannski ekkert í vondum málum en þetta verkfall er auðvitað pirrandi,“ segir Sigurbjörg.
Sigurbjörg á tvíburasystur sem útskrifast næsta vor og verður þá haldin sameiginleg útskriftarveisla fyrir þær systur. Sigurbjörg þarf því ekki að hafa áhyggjur af því að þurfa mögulega að afpanta veislusal og veitingar eins og mörg skólasystkini hennar sem eiga að útskrifast núna um jólin.
Sigurbjörg segir að það verði erfitt að byrja nýtt ár og vera enn nemandi við FSu með ókláraðan stúdent. „Ég veit um krakka sem eru að fara í háskóla eftir áramót eða í lýðháskóla í Danmörku. Þetta verkfall setur allt úr skorðum hjá þeim.“
Fáránlegt að FSu sé eini skólinn í verkfalli
Sigurbjörg er síður en svo sátt við fyrirkomulag kennaraverkfallsins. „Mér finnst fáránlegt að FSu sé eini framhaldsskólinn sem er í verkfalli. Það gerir mig virkilega reiða að það sé hægt að velja bara einhvern einn skóla. Það er heldur ekkert að gerast í samningaviðræðunum. Það er eins og öllum sé bara sama, því að við erum bara einhver skóli úti á landi sem enginn er að pæla í.“
Aðspurð hvernig Sigurbjörg haldi það verði að byrja í skólanum aftur eftir verkfall segir hún að það verði örugglega erfitt. „Það eru náttúrulega allir komnir úr rútínu. Ég gæti jafnvel trúað því að það séu ekki allir að fara að koma aftur í skólann. Fólk er kannski komið í vinnu og bara hætt að pæla í skólanum. Þetta er náttúrulega hræðilegt.“
Óvissan óþægileg
Sigurbjörg segir að hljóðið í útskriftarhópnum hennar sé ekki gott. „Þetta er svo mikil óvissa, þetta er svo óþægilegt. Við vitum einhvern veginn ekkert. Það var haldinn fundur sérstaklega fyrir útskriftarnemana, sem var ágætt en það kom einhvern veginn ekkert út úr þeim fundi.“
„Ég skil alveg að skólastjórnendur viti ekkert meira en við vitum. En óvissan er svo óþægileg. Við vitum ekkert hvort við séum að klára skólann í janúar eða á milli jóla og nýárs. Þetta veldur ákveðnum kvíða.“
„Það er bara fáránlegt að við séum eini framhaldsskólinn í verkfalli og ég er ekki einu sinni viss um að allir viti að það séu framhaldsskólar í þessu kennaraverkfalli. Það er bara alltaf verið að tala um leikskólana og grunnskólana, ekki okkur,“ segir Sigurbjörg að lokum.