„Við erum mjög spennt fyrir kvöldinu“

Hanna Dóra og samnemendur hennar í FSu voru á fullu að undirbúa söngkeppni NFSu þegar blaðamann sunnlenska.is bar að garði. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Söngkeppni NFSu verður haldin í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi í kvöld.

Alls taka átta keppendur þátt í söngkeppninni sem verður með James Bond þema.

„Undirbúningur hefur gengið mjög vel. Það hafa allir verið tilbúnir að hjálpa með allt, allar nefndirnar mjög duglegar. Við erum mjög spennt fyrir kvöldinu,“ segir Hanna Dóra Höskuldsdóttir, varaformaður Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands, í samtali við sunnlenska.is.

„Í kvöld kemur einnig fram sigurvegarinn síðan í fyrra, Gísli Freyr Sigurðsson, ásamt hljómsveit sinni Slysh. Hljómsveitin Koppafeiti sér svo um að spila undir hjá flestum keppendum.“

Dómnefnd kvöldsins skipa þeir Jóhann Ingi Stefánsson úr Tónlistarskóla Árnesinga, Örlygur Smári úr Hr. Eydís og Stefán Ármann Þórðarson úr Stuðlabandinu.

„Við hvetjum fólk til að mæta í kvöld. Það er hægt að kaupa miða við hurð eða á stubb.is. Húsið opnar klukkan sjö og keppnin hefst klukkan átta. Við erum mjög spennt fyrir þessu,“ segir Hanna Dóra að lokum.

Fyrri greinTvö héraðsmet á Gaflaranum
Næsta greinKosningarnar