Í janúar opnar ný æfingastöð á Selfossi sem ber heitið Box800. Eigendur stöðvarinnar eru hjónin Alda Kristinsdóttir og Eyþór Stefánsson, sem hafa víðtæka reynslu þegar kemur að líkamsrækt.
„Við hjónin höfum alltaf haft mikinn áhuga á hreyfingu og öllu sem við kemur heilsu. Okkur langaði til þess að opna æfingastöð þar sem fólk getur notið þess að hreyfa sig og verið hluti af samfélagi,“ segir Alda í samtali við sunnlenska.is.
Úr körfuboltanum í Crossfit
Eyþór og Alda eiga það bæði sameiginlegt að hafa byrjað sinn íþróttaferil í körfubolta. „Ég var í körfubolta á yngri árum. Eftir körfuboltann tók við smá ræktartímabil sem mér leiddist. Það var svo árið 2015 sem ég prufaði Crossfit og fannst það mjög skemmtilegt. Markmið mitt með hreyfingu er að líða vel og hafa gaman. Þessi áhugi fyrir hreyfingu og almennri heilsu leiddi mig til þess að sækja um nám hjá ÍAK en ég er að læra Styrktarþjálfarann. Ásamt því er ég með Crossfit L1 þjálfararéttindi,“ segir Eyþór.
Alda segir að hún hafi farið sömu leið og eiginmaður hennar. „Ég byrjaði að lyfta sjálf þegar ég var ennþá í körfuboltanum og fannst það skemmtilegt. Eftir að ég hætti í körfuboltanum fann ég þó að mig langaði að tilheyra hópi og prófaði því Crossfit árið 2014. Ég hef því æft Crossfit síðan, ásamt því að lyfta mikið sjálf. Í dag sækist ég í fjölbreytta hreyfingu með það að markmiði að líða vel,“ segir Alda en þess má geta að hún er með BSc gráðu í Íþrótta- og heilsufræði við HÍ og er að ljúka við master núna í vor 2023.
Í Box800 verður boðið upp á fjölbreytta hóptíma. „Algengasti tíminn í töflunni hjá okkur heitir Hreysti. Í þeim tímum er boðið upp á fjölbreyttar og skemmtilegar æfingar sem hægt er að aðlaga að hverjum og einum. Ásamt Hreysti eru tímarnir Buttlift og Styrkur. Við komum einnig til með að bjóða upp á lokuð námskeið fyrir konur, krakka og unglinga. Stöðin er í raun fyrir alla þá sem vilja auka lífsgæði sín og vera hluti af samfélagi.“
Vilja að iðkendum þeirra líði vel
Þegar blaðamaður sunnlenska.is kíkti við hjá þeim hjónum í húsnæði Box800 að Gagnheiði 17 voru iðnaðarmenn í óða önn að gera og græja svo að allt yrði klárt fyrir opnunina í janúar. Óhætt er að segja að húsnæðið hafi tekið miklum breytingum síðan þau tóku við því í nóvember og stefnir allt í stórglæsilega æfingastöð.
Í sívaxandi sveitafélagi veitir ekki af fleiri stöðum þar sem er hægt að leggja rækt við líkama og sál og segja Alda og Eyþór að þau hafi fundið fyrir mikilli velvild frá fólki í kringum sig. „Við höfum fengið góðar viðtökur og finnum að fólk er almennt mjög spennt. Við erum sjálf ótrúlega spennt og getum ekki beðið eftir að taka á móti fólkinu á nýju ári. Í Box800 leggjum við áherslu á faglegt og hlýtt umhverfi. Við viljum að iðkendum okkar líði vel og finni fyrir góðu utanumhaldi. Hægt er að kynna sér þjónustu Box800 nánar inn á www.box800.is,“ segir Alda að lokum.