„Síðasti sólarhringur er búinn að vera mjög viðburðaríkur og nóg af verkefnum fyrir okkar fólk,“ sagði Elín Hjartardóttir, formaður Flugbjörgunarsveitarinnar Hellu, í samtali við sunnlenska.is.
„Það var ýmislegt sem var að fjúka og brotna, auk þess sem við þurftum að hemja þakkanta og efni af byggingarsvæðum. Þeir voru vel nýttir strekkiborðarnir hjá okkur,“ segir Elín.
Fyrsta útkall sveitarinnar barst kl. 17:22 í gær og má segja að verkefnin hafi hlaðist upp eftir það fram til klukkan ellefu í gærkvöldi. Klukkan átta í morgun var svo haldinn stöðufundur og fyrsta útkall dagsins í dag kom klukkan 9:45.
„Við vorum að til að verða hálf þrjú í dag í ýmsum verkefnum. Svo tekur við frágangur hjá okkur á okkar tækjabúnaði og það er ýmislegt sem þarf að laga. Það sprakk til dæmis hliðarrúða í bíl hjá okkur eftir grjótfok og svo fór rúða í afturhleranum á sama bíl,“ segir Elín en vaskur hópur björgunarsveitarfólks sinnti útköllunum og vinnan gekk vel.
„Það voru átján eða nítján manns í verkefnum í gær og í dag, við vorum þrjár manneskjur í húsi og þrír bílar frá okkur úti í verkefnum. Síðan erum við með svæðisstjórnina fyrir Rangárvallasýslu og V-Skaftafellssýslu og það var talsvert af verkefnum þar í dag, sem Dagrenning, Víkverji og Stjarnan í Skaftárhreppi sinntu,“ bætti Elín við að lokum.
Hér fyrir neðan er myndband og nokkrar myndir úr útköllum í Rangárvallasýslu síðasta sólarhringinn.