Viðbygging við íþróttamiðstöðina á Borg boðin út

Fyrirhuguð viðbygging við íþróttamiðstöðina á Borg í Grímsnesi. Mynd/GOGG

Grímsnes- og Grafningshreppur hefur boðið út viðbyggingu við íþróttamiðstöðina á Borg, sem hýsa á líkamsræktaraðstöðu, aðstöðu fyrir sjúkraþjálfun og skrifstofur.

Viðbyggingin tengist við austurgafl íþróttamiðstöðvarinnar og verður á tveimur hæðum með heildarflatarmál um 670m². Líkamsrækt og sjúkraþjálfun ásamt stoðrýmum verða á 1. hæð en á 2. hæð verða skrifstofur og stoðrými.

„Við erum mjög spennt yfir þessari viðbyggingu og mun hún ýta undir heilsueflandi samfélag í sveitarfélaginu en það hefur lengi verið ákall um stærri líkamsræktaraðstöðu með aðgengi fyrir alla,“ sagði Ása Valdís Árnadóttir, oddviti, í samtali við sunnlenska.is.

„Við sjáum jafnframt fyrir okkur mikla möguleika með skrifstofurýmið þar sem sífellt er verið að auglýsa fleiri störf án staðsetningar og oftar en ekki vill fólk komast útaf heimilinu til að vinna án þess að þurfa keyra langar leiðir til vinnu,“ bætti Ása Valdís við.

Útboðsfrestur rennur út þann 11. júlí næstkomandi.

Fyrri greinSkokkað við Rangá
Næsta greinAfgreiðslu á framkvæmdaleyfi fyrir Hvammsvirkjun frestað