Enn er rafmagn keyrt á varaafli í Vík og Mýrdal eftir að Víkurstrengur bilaði aðfaranótt síðasta sunnudags þar sem hann liggur plægður ofan í Skógá.
Viðgerð hófst í gær með því að boruð voru mjó göng undir árfarveg Skógár og rör dregin í gegnum þau. Jarðstrengirnir verða svo dregnir þar í gegn. Samstarfsaðilar RARIK hjá verktakafyrirtækinu Þjótanda hófu borunina rétt eftir hádegi í gær og luku verkefninu um klukkan 5 í nótt.
Starfsfólk framkvæmdaflokka RARIK hóf svo í dag vinnu við að draga strengi í gegnum rörin og tengja, þannig að hægt verða að koma rafmagni aftur á svæðið eftir strengjum. Einnig á að nota tækifærið og leggja 11 kV streng sem liggur á sama stað undir ána. Áætlað er að viðgerðin taki u.þ.b. tvo daga með prófunum.
Bilun út frá spennistöð RARIK við Ytri-Sólheima, sem fór hálf á kaf í vatnsveðrinu á sunnudag og mánudag, er fundin og er viðgerð þar hafin. Vonast er til að hún klárist í kvöld eða á morgun. Bilunin olli töfum við uppbyggingu varaafls í Mýrdal seinni hluta mánudags en hún er staðsett í streng sem sér sendi Neyðarlínunnar fyrir rafmagni. Strengurinn skemmdist vegna mikils vatnsálags og hefur sendirinn verið keyrður áfram með varaflsvél Neyðarlínunnar á meðan.