Fyrirtækið Tilefni á Selfossi hefur heldur betur slegið í gegn hjá Sunnlendingum og nærsveitungum.
Tilefni var stofnað síðsumars í fyrra af vinkonunum Rakel Guðmundsdóttur og Hönnu Margréti Arnardóttur. Fyrirtækið sérhæfir sér í veisluvörum, skreytingum og öðru fyrir veislur og hefur stækkað hratt á skömmum tíma.
„Eftir að hafa sótt margar veislur mánuðina á undan sátum við saman eitt kvöldið og þar kviknaði hugmyndin að Tilefni. Við upplifðum mikinn skort á fallegum veisluvörum á Suðurlandi og öllum tilefnum fylgdi mikil keyrsla fram og til baka yfir heiðina,“ segir Rakel í samtali við sunnlenska.is.
Hugmynd sem þróaðist hratt
„Við viljum að viðskiptavinir okkar geti nálgast fallegar veisluvörur með lítilli fyrirhöfn, auk þess auka þægindin og minnka stressið sem fylgir því að halda hvers konar veislur hvort sem það er árshátíð, afmæli, baby shower, brúðkaup, gott partý eða hvert sem tilefnið er,“ segir Hanna Margrét.
Upprunalega ætluðu þær einungis að opna netverslun með veislu- og leiguvörum en hugmyndin þróaðist hratt í að bjóða einnig upp á skreytingaþjónustu og það hefur verið nóg að gera hjá þeim síðan.
Lagerinn fljótur að tæmast
„Viðtökurnar hafa farið fram úr öllum væntingum. Við finnum greinilega að það hefur verið vöntun á þessari þjónustu á markaðnum, ekki bara á Suðurlandi heldur einnig út um land allt. Við höfum verið að skreyta í Reykjavík, Keflavík, Selfossi, Eyrarbakka og á fleiri stöðum,“ segir Rakel.
„Þetta hefur farið mjög hratt af stað. Við tókum inn risa pöntun í lok sumars en sá lager var fljótur að tæmast og svo höfum við verið að bæta við lagerinn síðan. Það kom okkur mjög mikið á óvart, þar sem við erum ekki búnar að opna heimasíðuna, hvað fólk hefur verið spennt fyrir þessu og það drífur mann áfram að gera þetta vel. Nú er það bara að klára heimasíðuna svo fólk geti verslað allar þessar fallegu vörur þar.“
Kynntust fyrir tveimur árum
Rakel er fædd og uppalinn Selfyssingur og Hanna Margrét kemur úr Kópavogi. „Í dag búum við nánast hlið við hlið hérna á Selfossi sem er ansi þægilegt. Við erum tvær með fyrirtækið og sinnum því að mestu leyti tvær, en fjölskyldur okkar beggja hafa staðið þétt við bakið á okkur og hjálpað okkur þegar þörf er á,“ segir Hanna Margrét.
„Við erum svo ótrúlega lánsamar að eiga mjög gott samband okkar á milli, við vinnum vel saman og það er alls ekki sjálfsagt. Við kynntumst í rauninni bara fyrir tveimur árum. Góðvinur okkar beggja kynnti okkur og í dag eigum við fyrirtæki saman og erum mjög þakklátar fyrir það. Við höfum lært mikið af hvorri annarri og erum mjög spenntar fyrir framtíðinni hjá Tilefni,“ segir Rakel.
Sem fyrr segir býður Tilefni upp á þjónustu fyrir hvers kyns veisluhöld. „Hingað til höfum við meðal annars skreytt fyrir brúðkaup, árshátíðir, afmæli, fyrirtækjaviðburði, frumsýningapartý og jólatónleika. Eins og staðan er í dag eru það líklegast fyrirtækin sem eru okkar stærsti kúnnahópur, það er fyrir skreytingarþjónustuna. Annars koma afmælin sterk inn í sölunni, þar sem við seljum fallegar og skemmtilegar vörur. Áramótin okkar voru mjög stór og seldum við allan lagerinn af áramótavörunum okkar,“ segir Hanna Margrét.
Þríþætt þjónusta
Hanna Margrét segir að þjónustan þeirra sé í raun þrenns konar. „Við bjóðum upp á veisluvörur til sölu, leiguvörur og skreytingaþjónustu. Veisluvörurnar eru sem dæmi tilbúin blöðrubogasett, sem viðskiptavinir blása sjálfir upp heima og stilla upp, latexblöðrur í öllum stærðum og litum, helíum álblöðrur, tölustafablöðrur, pappadiskar, glös og annað skraut.“
„Leiguvörurnar eru af ýmsum toga til dæmis fordrykkjastandur, blómaveggir, blómabogi, LED skilti, kampavínsskálar, kertastjakar, diskókúlur, hörservíettur og margt fleira.“
„Skreytingarþjónustan býður upp á ráðgjöf og uppsetningu á vörum okkar. Auk þess höfum við verið að skissa upp heilu partýin, mætum á staðinn og stillum öllu upp. Við sníðum skreytingar eftir þörfum hvers og eins og erum opnar fyrir öllum hugmyndum. Okkur finnst mjög gaman að gera eitthvað nýtt, ferskt og sérstakt. Öll tilefni eru mikilvæg og skreytingar spila stórt hlutverk við að gera tilefnið eftirminnilegt, þar komum við sterkar inn.“
Kampavínsstandur fyrir 138 glös
Aðspurð út í vinsælustu vörurnar segir Hanna Margrét að kampavínsstandurinn þeirra sé lang vinsælastur. „Við hönnuðum hann sjálfar og fengum Albert, kærasta Rakelar, til að smíða hann fyrir okkur. Standurinn er aðallega hugsaður fyrir fordrykki í veislum eða partýum. Blóma- eða blöðruskreyting fylgir með standinum.“
„Við mætum og setjum hann upp á staðnum og tökum hann einnig niður eftir viðburðinn. Mjög þægilegur í stærri veislur þar sem oft er erfitt að finna stað fyrir fordrykkinn, en á standinum okkar kemur þú fyrir um 138 kampavínsglösum.“
„Við finnum einnig að blöðrubogarnir eru að koma sterkir inn hjá okkur. Við höfum mikið verið að setja upp risastóra blöðruboga með LED lýsingu inni á milli og eru þeir mikið bókaðir þegar við erum að mæta á staðinn og skreyta fyrir viðskiptavini.“
Öll tilefni mikilvæg
Vinkonurnar segja að Íslendingar séu farnir að skreyta meira en þeir gerðu áður fyrr. „Ein ástæðan er líklega sú að það er orðið mun auðveldara að nálgast skreytingar í dag og meira úrval. Við finnum að fólk vill almennt leggja mikið í skreytingar og gera tilefnið eftirminnilegt og það er mjög gaman að fá að vera hluti af því, þess vegna reynum við alltaf að fara skrefinu lengra til að gera tilefnið sérstakt. Eins og við segjum alltaf: Öll tilefni eru mikilvæg.“
„Heimasíðan okkar www.tilefni.is opnar á næstu vikum. Það er búið að vera svo mikið að gera hjá okkur að við einfaldlega höfum ekki náð að klára síðuna almennilega, en hún er á lokametrunum og við erum svo spenntar að opna hana fyrir ykkur sem eruð í veisluhugleiðingum.“
„Við hvetjum við Sunnlendinga, sem og aðra, til að fylgjast með okkur á samfélagsmiðlum undir heitinu tilefni.is. Svo er alltaf hægt að senda okkur fyrirspurnir á tilefni@tilefni.is og við svörum öllum fyrirspurnum. Endilega heyrið í okkur ef þið viljið nýta ykkur þjónustu okkar,“ segja þær stöllur, kátar að lokum.