„Viðtökurnar hafa verið ævintýralegar“

Kraftvélar eru í samstarfi við Bílanaust á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Nýverið opnaði fyrirtækið Kraftvélar á Selfoss í samstarfi við Bílanaust en Kraftvélar sérhæfa sig m.a. í sölu og útleigu á vinnuvélum og landbúnaðartækjum.

Suðurland gríðarlega mikilvægt landbúnaðarsvæði
„Við höfum verið í samstarfi við Bílanaust á Akureyri síðan 2019 með góðum árangri og höfum alltaf viljað auka það samstarf. Hugmyndin okkar var sú að hefja samstarf við Bílanaust á Selfossi sumarið 2020 en þar sem okkar stærsti samkeppnisaðili í landbúnaði hvarf af braut og voru einmitt með höfuðstöðvar á Selfossi vildum við flýta fyrir samstarfinu og mæta fyrr á staðinn, enda er svæðið gífurlega mikilvægt fyrir landbúnað,“ segir Viktor Karl Ævarsson hjá Kraftvélum í samtali við sunnlenska.is.

Viktor segir viðtökunar hafi verið vonum framar. „Viðtökurnar hafa verið ævintýralegar, við erum búnir að flytja vélar og tæki á staðinn en höfum ekki auglýst einn staf um þetta samstarf á Selfossi. Þrátt fyrir auglýsingarleysið hafa fréttirnar spurst út og mikill fjöldi af viðskiptavinum lagt leið sína í heimsókn til okkar hjá Bílanaust Selfossi.“

„Við fórum af stað með auglýsingar í gær og það má því segja að samstarf Kraftvéla og Bílanausts á Selfossi hafi hafist formlega fimmtudaginn 5. mars,“ segir Viktor.

Viktor Karl Ævarsson. Ljósmynd/Aðsend

Alltaf nóg að gera þegar kemur að heyskap
Viktor segir að það sé fullur áhugi hjá Kraftvélum að bæta enn frekar við vöruúrvalið og þjónustuna við Sunnlendinga.

„Fyrsta skrefið er að rækta þetta nýja samstarf við Bílanaust á Selfossi og undirbúa okkur fyrir sumarið af því við höfum alltaf nóg að gera þegar kemur að heyskap og því gott að gera verið staðsettir nær Suðurlandinu með tæki og varahluti.“

„Þrátt fyrir að landbúnaður verði aðal áherslan okkar á Selfossi þá erum við líka með mjög öflugt vöruframboð á sviði vinnuvéla, lyftara og atvinnubifreiða þar sem við munum að sjálfsögðu líka vera með þau tæki til sýnis og sölu.

Leiga á dráttarvélum hefur verið aukast mikið á undanförnum árum og við höfum boðið upp á þann valmöguleika í meira en átta ár með góðum árangri, ég hvet því bændur til þess að forvitnast um þennan valkost hjá okkur. Það eru spennandi tímar framundan hjá okkur í Kraftvélum og við hlökkum til að þjónusta Suðurlandið betur með aðkomu okkar á Selfoss,“ segir Viktor að lokum.

Fyrri greinTakk fyrir Daði og Gagnamagnið
Næsta greinDjöflaeyjan frumsýnd í kvöld