Nýverið fékk klúbburinn Strókur á Selfossi eina milljón króna í styrk frá VIRK starfsendurhæfingarsjóði.
Klúbburinn Strókur var formlega stofnaður á Selfossi vorið 2005 af aðstandendum einstaklinga með geðraskanir og velunnara þeirra en undirbúningsstarfið tók tíu ár. Markmiðið var að færa þjónustuna nær heimabyggð og bjóða íbúum á Suðurlandi upp á athvarf og endurhæfingu sem stuðlar að áframhaldandi bata og virkni.
„Strókur er opinn mánudaga til fimmtudaga frá 8:30 til 15:00. Dagskrá Stróks er þannig uppbyggð að boðið er upp á dagskrárliði sem styðja við iðju-, líkamlega, andlega- og félagslega færni. Unnið er með hverjum og einum að hans markmiðum og einstaklingar studdir til eflingar, hvort sem er í formi fjölbreyttar vinnu í húsinu, öðrum sjálfboðaliðastörfum, skráningu í nám eða þeir aðstoðaðir við að komast aftur út á vinnumarkað,“ segir Fjóla Einarsdóttir, forstöðukona Stróks, í samtali við sunnlenska.is.
Fjóla segir að Strókur sé fyrir einstaklinga á öllu Suðurlandi, 18 ára og eldri sem hafa lent utan vinnumarkaðar og eru að glíma við félagslega einangrun og/eða geðraskanir. „Hér er fólk hvatt til virkni og stutt í sínu bataferli á sínum eigin forsendum. Jafningjastuðningur er án efa einn af stærstu styrkleikum starfseminnar og það að rjúfa félagslega einangrun þegar einstaklingur er utan vinnumarkaðar í skemmri eða lengri tíma.“
Mjög mikilvægur styrkur
„Styrkurinn frá Virk er okkur mjög mikilvægur til þess að geta haldið úti faglegu starfi Stróks í ljósi þess að við treystum á fjárstuðning og styrki til þess að halda rekstrinum gangandi. Við erum því afskaplega þakklát fyrir að fá styrkinn og í leið viðurkenningu á mikilvægi okkar starfs.“
„Vel hefur gengið að efla og styrkja starfsemina síðastliðin ár hvað varðar faglegri þjónustu og samvinnu við helstu stofnanir í sama málaflokki. Þjónustuþegar hafa aldrei verið eins margir og nú, meira flæði er á þjónustuþegum en áður; það er meira nú um að einstaklingar staldri styttra við utan vinnumarkaðar og endurhæfing í gegnum Strók er markvissari. Strókur hefur þannig sýnt fram á gildi sitt sem virknimiðstöð og úrræði fyrir hvern þann sem vill og þarf á stuðningi að halda. Með styrkjum náum við að gera starfsemi Stróks enn faglegri og viðameiri,“ segir Fjóla.
Sumarbasar 19. júní
Þessa dagana eru þau hjá Stróki í óðaönn að skipuleggja sumarbasar Stróks sem er mikilvæg fjáröflun fyrir klúbbinn. „Á sumarbasar Stróks er afrakstur iðjunnar í húsi seldur á hóflegu verði. Við höfum lagt mikinn metnað í að rækta blóm seinustu vikur og verður fjöldinn allur af inniblómum til sölu ásamt listilega skreyttum blómapottum, blómahengjum, steinum, málverkum, skartgripum og ýmsu öðru sem félagar hafa verið að vinna að í sinni iðju hér í húsi.“
„Vert er að taka fram að hér eru miklir listamenn að störfum og vörurnar alveg hreint einstaklega vandaðar og fallegar. Sumarbasarinn verður haldinn 19. júní kl. 13-16 og eru allir velkomnir að kíkja hingað til okkar þann dag og gera góð kaup til styrktar góðu málefni,“ segir Fjóla.
Vel tekið á móti öllum
„Þeir sem vilja kynnast starfseminni mega endilega kíkja á okkur að Skólavöllum 1 á Selfossi á opnunartíma, þiggja kaffisopa og fá leiðsögn um húsið. Við tökum svo sannarlega vel á móti öllum. Nánari upplýsingar um starfsemina má sjá á Facebooksíðu Stróks, Klúbburinn Strókur, og á heimasíðunni okkar,“ segir Fjóla að lokum.