Veðurviðvaranir á Suðurlandi hafa verið uppfærðar og á tímabili er í gildi appelsínugul viðvörun, frá klukkan 21 í kvöld til klukkan 10 í fyrramálið.
Suðurlandsvegi var lokað nú í hádeginu frá Skógum að Vík í Mýrdal vegna veðurs. Þæfingsfærð er víða í Árnessýslu og þungfært á Hellisheiði og Suðurstrandarvegi.
Gul viðvörun er í gildi frá klukkan 13 í dag, til klukkan 21 í kvöld, þá tekur við appelsínugul viðvörun og frá klukkan 10 í fyrramálið og til klukkan 16 á morgun er gul viðvörun í gildi. Það verður semsagt skítaveður næsta sólarhringinn.
Gert er ráð fyrir að veðrið verði verst í Mýrdalnum og undir Eyjafjöllunum. Þegar versta veðrið gengur yfir er gert ráð fyrir austan og norðaustan 18-28 m/sek með snjókomu og skafrenningi, lélegu skyggni og slæmum akstursskilyrðum. Búast má við samgöngutruflunum á afmörkuðum svæðum.
Á Suðausturlandi er gul viðvörun í gildi frá klukkan 15 í dag til klukkan 19 á sunnudagskvöld og appelsínugul viðvörun frá klukkan 21 í kvöld til klukkan 14 á morgun. Þar verður norðaustan 20-28 m/sek þegar veðrið er verst og búist við snörpum vindhviðum, einkum í Mýrdal og Öræfum.