Veiðisumarið hófst í Ölfusá á mánudagsmorgun og hefur farið ágætlega af stað. Viktor Óskarsson landaði fyrsta laxi sumarsins, fjögurra punda hrygnu snemma á mánudagsmorgun.
Alls veiddust fjórir laxar á fyrstu vaktinni og að minnsta kosti fimm fiskar losnuðu af í löndun, þannig að það er greinilega nóg af fiski í ánni, sem lítur vel út þó hún sé vatnslítil.
Í gær, þriðjudag, komu svo þrír laxar á land. Guðmundur Jósefsson veiddi þann stærsta, níu punda hrygnu á efsta svæðinu.
Laxarnir veiddust bæði á maðk og flugu en Viktor náði báðum sínum á Grýlu laxatúpu.