Suðurpólfarinn Vilborg Arna Gissurardóttir lenti á Íslandi í nótt eftir ævintýralegt ferðalag sitt og göngu um Suðurskautslandið.
Vilborg lagði upp í gönguna þann 11. nóvember og eftir 60 daga göngu, þann 17. janúar, hafði hún lagt að baki 1140 km leið ein og sér og án utanaðkomandi aðstoðar, fyrst allra Íslendinga.
Vinir og vandamenn Vilborgar tóku á móti henni í Leifsstöð í gærkvöldi, meðal annars félagar hennar úr Björgunarsveitinni Dagrenningu á Hvolsvelli.
„Við erum öll stolt af þér og þetta er stórkostlegt afrek sem þú hefur unnið og ómetanlegt fyrir okkur sem heima sátum að fá að fylgjast með. Megi dugnaður þinn vera okkur hinum áframhaldandi hvatning til að stunda heilbrigt líferni og útivist, ganga í íslenskri náttúru og fögru fjalllendi með íslenskt súrefni í æðum vitandi það að þá eru okkur allir vegir færir,“ segir meðal annars í kveðju til Vilborgar á Facebooksíðu Dagrenningar.
Samhliða göngunni safnaði Vilborg Arna áheitum til styrktar Lífi, styrktarfélags kvennadeildar Landspítalans. Söfnunin er enn í fullum gangi og er hægt að heita á Vilborgu á síðunniwww.lifsspor.is. Einnig er hægt að hringja í síma 908-1515 og heita 1500 krónum á hana. Nú hafa safnast um 13,5 milljónir með beinum framlögum fólks og fyrirtækja.