„Vildi ekki sitja bara á vitneskjunni sjálf“

Hildur Grímsdóttir. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Í mars hefst sex vikna námskeið á Selfossi sem er sérstaklega ætlað konum eftir meðgöngu.

„Mömmutímar er námskeið í litlum hópi kvenna sem flestar eiga það sameiginlegt að hafa átt barn eða börn einhverntíman á lífsleiðinni. Námskeiðið er uppbyggt með mikla fræðslu og líkamsvitund í huga ásamt því að taka hina eiginlegu æfingu dagsins,“ segir Hildur Grímsdóttir sjúkraþjálfari, sem stendur fyrir námskeiðinu, í samtali við sunnlenska.is.

Mikilvægt að leiðrétta vöðvaójafnvægi
„Æfingarnar sem við framkvæmum fara eftir getu hverrar og einnar konu en allar læra að byggja upp góðan og traustan líkamlegan grunn fyrir hvaða markmið sem er. Þjálfunin er persónuleg og því er takmarkaður fjöldi sem kemst að. Þetta er kjörið tækifæri fyrir móður að gefa sér tíma fyrir sjálfa sig, til að efla sig og styrkja og verða enn betri útgáfa af sjálfri sér,“ segir Hildur sem hefur verið að sérhæfa sig í kvenheilsu og fæðingarsjúkraþjálfun síðan í haust.

Á námskeiðinu er meðal annars farið yfir líkamsbeitingu í æfingum og daglegu lífi, öndunartækni, grindarbotnsheilsu, veikleika og styrkleika í vöðvakerfinu okkar og að leiðrétta mögulegt vöðvaójafnvægi, sem gæti verið að valda verkjum eða óþægindum.

„Svo verðum við á rólegu og andlegu nótunum líka og endum tímana á slökun. Það er því mikið sem ég fer yfir á þessu námskeiði og konurnar fá gott og mikið veganesti eftir námskeiðið,“ segir Hildur.

Mikil þörf fyrir námskeið eins og þetta
Hildur segir að það hafi lengi staðið til að halda námskeið sem þetta en hún hafi ekki gefið sér til þess fyrr en núna. „Það má segja að ég hafi farið í ákveðna naflaskoðun með vinnuna mína. Það urðu stórar breytingar, ný tækifæri opnuðust og ég greip þau á lofti. Ég fór að sérhæfa mig meira á kvennasviði innan þjálfunar og sjúkraþjálfunar og þetta er eitt afsprengi þess. Þörfin er til staðar og ég hef ástríðu fyrir þessu svo ég ákvað að láta verða af þessu núna og leyfa konum að njóta, án þess að sitja bara á vitneskjunni sjálf. Það hjálpar engum, nema sjálfri mér sem væri eigingjarnt,“ segir Hildur.

„Mesta áherslan er á konur sem hafa átt barn eða börn en allar konur eru samt velkomnar. Þetta er líka frábært fyrir konur sem eru nýlega búnar að eiga barn og vantar að taka fyrstu skrefin í að byggja sig upp á ný eftir meðgöngu og fæðingu. Einnig er þetta tilvalið námskeið fyrir þær konur sem eru komnar með eldri börn en hafa einhvernveginn aldrei gefið sér tíma fyrir sjálfa sig og eru jafnvel enn að glíma við vöðvaójafnvægi, veikleika eða verki frá fyrri meðgöngu, eru óöruggar með að fara af stað í hreyfingu eða hafa gefist upp einhvern tímann á leiðinni,“ segir Hildur.

Birtingarmynd grindarbotnsvandamála mismunandi
Hildur segir að það sé alltaf mikilvægt að hlúa að grindarbotninum, ekki bara fyrst á eftir meðgöngu. „Það er mikilvægt að þekkja sjálfa sig og vera meðvituð um eigin grindarbotnsheilsu. Eftir meðgöngu og fæðingu hvort sem barn fæðist um fæðingarveg eða með keisara þá hefur verið gríðarlegt álag á grindarbotninn í lengri tíma. Á meðgöngu þurfa vöðvarnir að bera aukinn þunga í lengri tíma vegna stækkandi barns og þess sem því fylgir og þar með erfiða vöðvarnir meira en fyrir meðgöngu. Það er því mikilvægt að byggja grindarbotnsvöðvana upp á ný með viðeigandi grindarbotnsæfingum,“ segir Hildur.

„Það er samt mikilvægt að taka það fram að vandamál með grindarbotn eru alls ekki bara tengd meðgöngu og fæðingu. Vandamálin eru margskonar og ef kona er með verki í grindarbotni þá ætti hún hiklaust að leita til fagaðila. Vandamál tengd grindarbotni hafa mismunandi birtingarmynd og geta komið fram víða í líkama, m.a. verið tengd verkjum í mjóbaki, kvið, mjöðmum eða fótum, þvaglátum, meltingu og hægðalosun eða kynlífi,“ segir Hildur að lokum sem vonast til að námskeið af þessu tagi sé komið til að vera.

Frekari upplýsingar um námskeiðið má fá með að hafa samband við Hildi í gegnum netfangið hildurgrims@gmail.com eða á Instagram síðu Hildar.

Fyrri greinÞrír kærðir fyrir að aka ljóslausir
Næsta greinGul viðvörun: Vindstrengir og ófærð