Vilja að ríkið setji fé í varnargarð við Uxafótarlæk

Veruleg hætta er á því að flóð eftir eldgos í Kötlu færi alla leið vestur til Víkur. Vatnsdýpt yrði þó ekki meira en 1 til 1,5 metrar, straumhraði yrði lítill og fyrst og fremst yrði þetta leðjudrulla.

Hægt yrði að koma í veg fyrir þetta með tiltölulega lágum varnargarði við Uxafótarlæk. Þetta kemur fram í minnisblaði sem sveitarstjórn Mýrdalshrepps sendi til fjárlaganefndar Alþingis í gær.

RÚV greinir frá þessu.

Í minnisblaðinu segir að menn hafi lengi haft áhyggjur af stöðu þorpsins í hamfaraflóði í tengslum við Kötlugos. Ekki hafi legið fyrir gögn um það fyrr en nú þegar Vegagerðin hafi látið framkvæma svokallaða hermun á flóðum sem kynnu að fylgja Kötlugosi til að meta áhrif þeirra á samgöngumannvirki. Vegagerðin hafi einnig látið gera líkan sem taki til áhrifa slíkra flóða á byggðina í Vík.

Sveitarstjórnin fer þess á leit við fjárlaganefnd að fjármagni verði veitt til að undirbúa varnarmannvirki strax á næsta ári en viðræður milli hennar, innanríkisráðuneytisins, Vegagerðarinnar og Almannavarnardeildar eiga að hefjast í haust.

Fyrri greinLjúffeng sítrónukaka (hnetulaus)
Næsta greinHundruðir kvöddu kaupmanninn á horninu