Byggðarráð Rangárþings ytra beinir því til stjórnar Landsvirkjunar að skoðað verði að höfuðstöðvar Landsvirkjunar verði fluttar á Hellu að hluta eða öllu leyti.
Í ályktun byggðaráðs segir að fyrirtækið sé í eigu þjóðarinnar allrar og það eigi ekki að vera náttúrulögmál að höfuðstöðvar fyrirtækisins séu í Reykjavík.
„Slík framkvæmd væri til þess fallin að nærsamfélagið njóti betur auðlinda sinna þar sem um 60% af framleiðslu fyrirtækisins verður til á Suðurlandi. Einnig væri þessi aðgerð í takt við orkunýtingarstefnu SASS 2017-2030,“ segir í ályktun sem byggðaráðið samþykkti samhljóða. Ráðið fól sveitarstjóra að senda áskorunina til stjórnar Landsvirkjunar og annarra sem málið varða.
Orð eru til alls fyrst
Í samtali við sunnlenska.is sagði Eggert Valur Guðmundsson, oddviti, að einhverjum þætti að finnast áskorunin bjartsýni en í hans huga sé hún það alls ekki og orð séu til alls fyrst.
„Landhelgisgæslan er farinn að hluta til eða öllu leiti suður með sjó. Fiskistofa farin norður í land eins og Byggðastofnun. Innheimtustofnun íslenskra sveitarfélaga er á Vestfjörðum. Á Suðurlandi verður meira en helmingur orkunnar til, auk þess sem innviðir, tengingar og samgöngur eru í góðu lagi. Og síðast en ekki síst má ekki gleyma yfirlýstri stefnu innviðarráðherra um að flytja opinber störf í auknum mæli út á landsbyggðina,“ segir Eggert Valur og vonar að þingmenn kjördæmisins muni leggjast á árar með sveitarstjórn Rangárþings ytra.