Sveitarstjórn Rangárþings eystra leggur áherslu á að við sameiningu heilbrigðisstofnana á Suðurlandi verði tryggt að aðgengi hinna dreifbýlli byggða að heilsugæslu verið ekki skertur.
Sveitarfélaginu hefur borist bréf frá heilbrigðisráðherra þar sem sameining Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja og Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands er kynnt. Bréfið var tekið fyrir á síðasta fundi sveitarstjórnar.
Í ályktun sveitarstjórnarinnar segir að hún leggi áherslu á að efla starfsemi heilsugæslustöðvarinnar á Hvolsvelli. Þar sé meðal annars einn fjölmennasti vinnustaður á Suðurlandi, kjötiðnaðarstöð Sláturfélags Suðurlands, þar sem vinna hátt í tvöhundruð manns og margir starfa í umhverfi þar sem alvarleg slys geta orðið.
Jafnframt leggur sveitarstjórn áherslu á að ekki verði farið í slíkar sameiningar fyrr en upplýsingar um sannanlegan sparnað aðgerðarinnar liggi ljós fyrir og verði kynntur almenningi.