Sóknarbörn Stokkseyrarsóknar vilja ekki að Eyrarbakkaprestakall verði sameinað öðrum prestaköllum í nágrenni sínu og hafa skorað á biskup Íslands að auglýsa stöðu sóknarprests í Eyrarbakkaprestakalli.
Stutt er síðan ákveðið var að bíða með auglýsingu embættisins og hefur séra Jón Ragnarsson í Hveragerði verið settur prestur í sókninni á meðan.
Á aðalfundi safnaðarins í síðustu viku var samþykkt áskorun þess efnis og hún send biskupi. Í yfirlýsingunni kemur fram að sóknarbörnum hugnist ekki að blandast inn í deilur sem verið hafi í Selfossprestakalli á undanförnum árum, og telur fundurinn að leysa þurfi þau deilumál til framtíðar, áður en til umræðu komi að sameina prestaköllin.
Þá segir jafnframt að fundarmenn telji ekki ástæðu til að ráðast sameiningu við Þorlákshafnarprestakall, án ítarlegrar umræðu.
Þá mótmælir aðalsafnaðarfundur Stokkseyrarsóknar því harðlega að ákvarðanir um hugsanlega sameiningu séu teknar án viðræðna við sóknarnefnd eða fulltrúa sóknarinnar. Fundurinn telji eðlilegt að undirbúningur og umræða um hugsanlega sameiningu prestakalla verði í góðri samvinnu við sóknarbörn Stokkseyrarsóknar.