Sveitarstjórn Skaftárhrepps harmar að Kirkjubæjarklaustur sé ekki inni á áætlun Símans um að tengjast Ljósnetinu á þessu ári og óskar svara frá Símanum um ástæður þess.
Eins og sunnlenska.is hefur greint frá munu 53 þéttbýlisstaðir á landinu tengjast Ljósnetinu á árinu, þar af sjö á Suðurlandi.
Málið var rætt á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku en Kirkjubæjarklaustur mun ekki fá Ljósnetið á þessu ári þrátt fyrir að ljósleiðari liggi meðfram þjóðvegi 1 í sveitarfélaginu.
Í bókun sinni vekur sveitarstjórn athygli á orðum Sævars Freys Þráinssonar, forstjóra Símans, þar sem hann segir: „Við vitum hve mikilvægt er fyrir sveitarfélög landsins að sitja ekki eftir á tækniöld, því fjarskipti skipa lykilsess í grósku samfélaga og farsæld fyrirtækja. Við gerum því okkar besta svo fjarskiptin stýri ekki byggðaþróuninni í landinu heldur skapi tækifæri fyrir landsmenn að hasla sér völl þar sem þeir vilja helst.“