Foreldrar í Rangárþingi ytra vilja að skólaakstur verði tekinn upp að nýju klukkan fimm síðdegis til að eldri grunnskólanemar geti fengið far að loknu íþróttastarfi.
Sveitarstjórn hefur verið afhentur undirskriftarlisti foreldra vegna þessa. Brynja Rúnarsdóttir er í hópi foreldra sem þar rituðu nafn sitt og segir hún að talsverður tími og kostnaður felist í því fyrir foreldra barna í dreifbýlinu að sækja börnin að loknu íþrótta- eða tómstundastarfi á Hellu. Með svokallaðri samfellu í skólastarfi var áður boðið upp á ferð kl. 17 en nú er síðasta ferð klukkan 15, en slíkt nýtist síður eldri börnunum. „Þetta er sorgleg afturför,“ segir Brynja.
Drífa Hjartardóttir, sveitarstjóri, segir málið enn til skoðunar en ljóst að ferðirnar verði ekki teknar upp á þessu skólaári. „Það er margt að skoða, ekki síst í samvinnu við íþróttafélögin og samstarf í íþróttastarfi með nágrönnum okkar í Rangárþingi eystra,“ segir Drífa. Hún segist skilja vel afstöðu foreldra í þessu sambandi. Hún telur að skoða þurfi einnig þátt jöfnunarsjóðs í þessu sambandi en sveitarfélög fá úthlutað að stórum hluta úr sjóðnum vegna mikils kostnaðar við skólaakstur.