Forráðamenn Eden í Hveragerði hyggjast flytja inn þrjá apa frá Þýskalandi og hafa þá til sýnis á þessum vinsæla ferðamannastað.
Eden hefur óskað eftir stuðningi Hveragerðisbæjar við innflutninginn og tók bæjarráð vel í erindi þeirra á fundi sínum í gær. „Með hækkandi bensínverði eru styttri ferðalög aftur efst á vinsældalistanum og því fagnar bæjarráð öllum áformum sem styrkt geta ferðaþjónustu í Hveragerði,“ segir í bókun bæjarráðs.
Jóhann Jakobsson í Eden sagði í samtali við sunnlenska.is að Eden væri komið í samband við aðila í Þýskalandi sem getur útvegað þrjá apa. „En vandamálið er að hér er ekki einangrunarstöð til að taka við þeim. Þess vegna þurfum við að koma henni upp sjálfir og könnuðum það m.a. hjá Hveragerðisbæ hvort það væri húsnæði hér í bænum sem við gætum fengið til þess,“ segir Jóhann.
Apar falla ekki undir skilgreininguna búfénaður og því er ekki hægt að taka við þeim á einangrunarstöðinni í Hrísey. Áður en þeir myndu losna úr einangrun þyrfti að votta að þeir bæru ekki með sér sjúkdóma sem finnast í mannfólki, t.d. berkla eða HIV.
„Þetta kostar heilan helling og sú upphæð hleypur á milljónum. Skriffinnskan er líka mikil í kringum þetta bæði úti og hér heima en við erum búnir að kanna það í ráðuneytunum hér heima hvað þarf til að þetta gangi í gegn og hvernig á að gera þetta. En þetta er ekki að fara að gerast í sumar, við setjum kraft í þetta í haust og þegar fjármögnun og pappírsvinnu er lokið ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að senda þá með fyrsta klassa í flugi til Íslands,“ segir Jóhann léttur í bragði.
„Við erum að höfða til fyrri og fallegri tíma. Það hefur verið kannað í Háskólanum að það fyrsta sem fólki dettur í hug þegar það heyrir „Hveragerði“ er Eden og apar. Hér voru reyndar aldrei apar. Þeir voru í Michelsen þar sem Blómaborg er núna en fólk setur samt samasemmerki milli apanna og Eden,“ segir Jóhann og bætir við að einnig sé verið að vinna í því að fá fugla í húsið. Á blómaskeiði Edens vakti talandi krákan Margrét mikla athygli en nú horfi menn á að koma upp skrautfuglabúri.