Fulltrúar minnihlutans í eigna- og veitunefnd Sveitarfélagsins Árborgar kölluðu eftir afsögn formanns nefndarinnar, Sveins Ægis Birgissonar, á fundi nefndarinnar í vikunni og mælast til þess að meirihluti D-listans biðji íbúa og starfmenn sveitarfélagsins afsökunar á því að hafa lagt fram villandi lokauppgjör vegna Selfosshallarinnar.
Á fundi eigna- og veitunefndar síðastliðinn þriðjudag var farið yfir leiðrétt uppgjör á Selfosshöllinni að beiðni Sigurjóns Vídalín Guðmundssonar bæjarfulltrúa S-lista.
Kostnaðarliðir inni sem alla jafna eru ekki í uppgjöri
Í bókun meirihluta D- og Á-lista kemur fram að meirihlutanum þyki leitt að lagt hafi verið fram uppgjör þann 16. apríl síðastliðinn með kostnaðarliðum sem alla jafna eru ekki settir fram í uppgjöri framkvæmdaverkefna hjá sveitarfélaginu.
Eftir yfirferð mannvirkja- og umhverfissviðs, ráðgjöf fjármáladeildar og KPMG var lagt fram leiðrétt uppgjör á fundinum á þriðjudaginn með þeim kostnaðarliðum sem eru eignfærðir hjá sveitarfélaginu.
„Venja hefur verið að uppgjör framkvæmdaverkefna séu lögð fram með kostnaði ásamt virðisaukaskatti en í samræmi við nýtt verklag eftir yfirferð mannvirkja- og umhverfissviðs, ráðgjöf fjármáladeildar og KPMG verður sú breyting hér eftir að uppgjör framkvæmdaverkefna verða lögð fram með kostnaði án virðisaukaskatts,“ segir í bókun meirihlutans.
Vegið freklega að embættismönnum og fyrrum meirihluta
Minnihlutinn segir vinnubrögð formanns eigna- og veitunefndar rakalaus og segja að vanhæfi hans kristallast í vinnubrögðum sem viðhöfð voru við bókun meirihlutans á fundinum þann 16. apríl. Í þeirri bókun sé vegið freklega að starfsheiðri embættismanna og fyrrum meirihluta bæjarstjórnar kjörtímabilið 2018-2022.
Í bókuninni þann 16. apríl kemur fram að heildarkostnaður við byggingu hallarinnar hafi verið rúmlega 1.857 milljónir króna með virðisaukaskatti og að framkvæmdin hafi verið um 657 milljónum yfir útboðsáætlun. Í nýju uppgjöri sem lagt var fram á fundi eigna- og veitunefndar hafi kostnaður við framkvæmdina verið 1.348 milljónir króna án virðisaukaskatts.
Minnihlutinn bókaði á fundinum á miðvikudag að fjárheimildir í fjárfestingaáætlun 2018-2022 hafi verið 1.623 milljónir króna og hafi verkefnið aldrei farið fram úr fjárheimildum hvers árs. Heildarfjárhæð verksins hafi verið 9% yfir samþykktum tilboðsliðum eða samtals tæplega 111,5 milljónir króna.
D-listinn ber fullt traust til formannsins
„Að þessu samanteknu, vegna vanhæfis, er farið fram á að núverandi formaður eigna og veitunefndar segi sig frá formennsku. Jafnframt er mælst til þess að bókun Sjálfstæðismanna frá fundi 16.04.2024 sé dregin til baka og bæði íbúar og starfsmenn sveitarfélagsins beðnir afsökunar á þeim ófaglegu og villandi framsetningu sem viðhöfð var í ofangreindri bókun meirihluta D-lista,“ bókuðu þeir Arnar Freyr Ólafsson, bæjarfulltrúi B-listans og Sigurjón Vídalín Guðmundsson, bæjarfulltrúi S-listans.
Meirihlutinn, þær Álfheiður Eymarsdóttir, bæjarfulltrúi Á-lista og Brynhildur Jónsdóttir, bæjarfulltrúi D-lista, svöruðu bókun þeirra Arnars og Sigurjóns á þann hátt að „fulltrúar meirihluta nefndarinnar beri fullt traust til formanns eigna- og veitunefndar og telji enga ástæðu til þess að hann víki.“