„Við freistum þess að ná samstöðu um áætlunina, en það er ekkert sjálfgefið í þeim efnum,“ segir Eggert Valur Guðmundsson, bæjarfulltrúi S-listans í Árborg, um fjárhagsáætlun næsta árs.
Seinni umræða um fjárhagsáætlunina fer fram þann 9. desember. Fulltrúar minnihlutans hafa gagnrýnt að bæjarsjóður verði rekinn með tapi á næsta ári, á meðan ekki eru nýttir allir löglegir tekjustofnar.
„Við í minnihlutanum viljum sjá þá tekjustofna nýtta sem fyrir eru. Þar erum við fyrst og fremst að horfa á að fasteignaskatturinn verði hækkaður lítillega fremur en að þjónusta við íbúana verði skert mjög harkalega,“ segir hann. Eggert leggur þó áherslu á að vonandi finnist einhver flötur sem samstaða geti orðið um.
Kallað hefur verið eftir hugmyndum stjórnenda stofnana sveitarfélagsins um hagræðingu og segir Eggert margt geta nýst úr þeim tillögum, og að þær kunni að skila ágætis árangri í hagræðingarskyni, með það að leiðarljósi að draga úr taprekstri.
„En það felur á margan hátt í sér skerðingu á þjónustu, þótt enginn einn hópur lendi verr í því fremur en annar,“ segir hann. Engu að síður megi búast við að flestir verði hennar varir.
Þá er boðuð gjaldskrárhækkun, sem almennt verður 4,5 prósent. Athygli hefur vakið að hækkun gjaldskrár hitaveitunnar er 18 prósent, sem talin er nauðsynlegt til að geta ráðist í framkvæmdir á vegum Selfossveitna.
Sé miðað við fyrstu drög að fjárhagsáætlun næsta árs, verður halli á A-hluta rekstrarins, en smávægilegur afgangur á rekstri alls sveitarsjóðs og undirstofnana.