Halla Sigríður Bjarndóttir og Gunnar Örn Marteinsson, F-lista, lögðu fram tillögu á fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps í gær um að leikskólagjöld tveggja elstu árganganna í leikskólanum Leikholti verði felld niður.
Í greinargerð með tillögunni segir að þar sem markmið skóla og Skólaþjónustu Árnesþings er varða læsi barna í leikskóla voru samþykkt af sveitarstjórn í vor, sé það eðlileg þróun að fella niður dagvistunargjöld elstu tveggja árganganna.
Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um að öll börn skuli njóta sömu réttinda til menntunar og að hún skuli vera þeim ókeypis. Samkvæmt lögum um grunnskóla er óheimilt að krefja börn eða foreldra þeirra um greiðslu fyrir kennslu. Af þeim sökum telja Halla Sigríður og Gunnar Örn nauðsynlegt að öll börn, sér í lagi tveir elstu árgangar leikskólans, geti verið í leikskólanum án tillits til fjárhags foreldra.
„Samfella í námi, læsi og ýmsir félagslegir þættir eru börnunum mikilvægir áður en hafið er nám í grunnskóla, líkt og nefnt er í markmiðum skóla og Skólaþjónustu Árnesþings,“ segir í greinargerðinni.
Sveitarstjórn tók vel í tillöguna og samþykkti að vísa henni til umfjöllunar og útfærslu hjá Skólanefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Tillaga Höllu Sigríðar og Gunnars gerir ráð fyrir að leikskólagjöldin verði felld niður frá og með 1. október 2014.