Regnboginn, J-listi, mun bjóða fram í komandi alþingiskosningum í flestum kjördæmum að sögn Bjarna Harðarsonar sem verður í efsta sæti listans í Suðurkjördæmi.
Regnboginn er regnhlífarsamtökum frambjóðenda sem eiga sér ákveðinn samnefnara, samhljóm sem dugir til að atkvæði fari frá einu kjördæmi til annars.
Auk Bjarna koma Guðmundur Brynjólfsson, rithöfundur á Eyrarbakka, og fjöldi annarra að framboðinu. Samkvæmt Bjarna verður fljótlega farið að huga að því að raða í sæti á listanum. Í öðrum kjördæmum verða Jón Bjarnason og Baldvin Sigurðsson á lista Regnbogans.
„Við erum að fylla það tómarúm að það stefndi í það að kjósendur vinstra megin við miðju, sem eru andvígir ESB aðild, hefðu ekki valkost í þessum kosningum,“ segir Bjarni um ástæðuna fyrir framboðinu.
„Við eru ekki með patent lausir á vanda heimila eða efnahagslífsins en teljum að með samstilltu átaki geti þessi þjóð unnið sig úr þeim vanda sem hún er í, en þá sé líka brýnt að horfa á hag hinna lægst launuðu og þeirra sem verst hafa farið út úr efnahagshruninu,“ segir Bjarni jafnframt.