Hópur sem vill halda leiðinni ofan af þjóðveginum, um Háeyrarveg inn í þorpið á Eyrarbakka hefur í vikunni safnað undirskriftum til stuðnings málstað sínum.
Í sumar voru settir upp vegtálmar á veginum og honum þannig lokað í kjölfar kvartana íbúa í nágrenninu vegna umferðar. Sú framkvæmd var þó tímabundin og óvíst um frekari lokun, eftir því sem heimildir Sunnlenska segja.
Hugmynd þeirra sem standa að undirskriftarsöfnuninni er að á veginum verði 15 km hámarkshraði og komið verði upp hraðahindrun. Þannig megi draga úr umferð og losna við ryk.
Ráðgert er að safna undirskriftum út vikuna og afhenda þær bæjaryfirvöldum í Árborg á mánudag.