Vilja hlúa að og vernda náttúru Kerlingarfjalla

Hollvinir Kerlingarfjalla stofnuðu félagið Kerlingarfjallavini í félagsheimili Hrunamanna á Flúðum fyrr í marsmánuði.

Kerlingarfjallavinir eiga það sameiginlegt að vilja hlúa að og vernda náttúru Kerlingarfjalla og stuðla að því að sem flestir geti notið náttúru þeirra í sátt við umhverfið.

Kerlingarfjallavinir ætla sér meðal annars að bæta aðgengi fólks að svæðinu, merkja gönguleiðir, styðja við rannsóknar- og fræðslustarf og vinna að kynningu Kerlingarfjalla sem einstaks áningarstaðar fyrir íslenskt og erlent ferðafólk.

Félagið er opið einstaklingum, fyrirtækjum, félagasamtökum og stofnunum sem styðja markmið þess.

Fimm manns skipa stjórn félagsins, þar af eru þrír tilnefndir af Fannborg, rekstarfélagi ferðaþjónustunnar í Kerlingarfjöllum, Hrunamannahreppi og ótilgreindum náttúruverndarsamtökum.

Í stjórn félagsins eru Íris Marelsdóttir sjúkraþjálfari og hjálparsveitarkona í Kópavogi, sem er formaður Kerlingarfjallavina, Borgþór Vignisson formaður Björgunarfélagsins Eyvindar á Flúðum, Friðrik Stefán Halldórsson bankamaður í Reykjavík og einn stofnenda ferðaklúbbsins 4×4, tilnefndur af Fannborg, Fríða Björg Eðvarðsdóttir, landslagsarkitekt hjá VSÓ ráðgjöf, tilnefnd af Landvernd og Halldóra Hjörleifsdóttir, varaoddviti Hrunamannahrepps.

Fyrri greinÞórsarar komnir í sumarfrí
Næsta greinHandtekinn eftir ítrekaðan harðfiskþjófnað