Hópur foreldra og forráðamanna barna í Sandvíkurskóla safnar þessa dagana undirskriftum þeirra sem vilja mótmæla fyrirhuguðum flutningi skólabarna úr skólahúsnæðinu.
Að sögn eins aðstandenda söfnunarinnar hafa viðtökur verið góðar við söfnuninni og margir undrast áætlanir bæjaryfirvalda um að hætta skólastarfsemi í húsinu.
Bent er á að miklum fjármunum hafi verið varið í breytingar og endurbætur á húsnæðinu á undanförnum árum og viðbygging við Tryggvagarð sé tiltölulega nýleg, tekin í notkun árið 1999. Ekki sé rétt að fórna þessu húsnæði sem sérstaklega hafi verið byggt sem skólahúsnæði.
Það sé einnig skammsýni að ætla að taka Sandvíkurskóla úr umferð þar sem tölur um fjölda barna á aldrinum eins til þriggja ára bendi til að nokkrir stórir árgangar komi til með að koma inn í skólana á næstu árum. Fjölgunin í Árborg láti nærri að vera um 25%.