Vesturport ehf, sem þekktast er fyrir uppsetningu leiksýninga hér á landi og erlendis, hefur sent inn erindi til sveitarstjórnar Hrunamannahrepps vegna áhuga á uppsetningu sögusafna í landi Grafar, við Flúðir í Hrunamannahreppi.
Búið er að vinna drög að viljayfirlýsingu um samstarf þessara aðila. Hugmyndin gengur út á að koma upp tveimur mismunandi sögusöfnum í hlöðunni sem nú hýsir Byggðarsafnið í Gröf. Annað safnið á að lýsa heimi norræna manna þar til þeir urðu kristnir um árið eitt þúsund. Hitt safnið mun lýsa því hvernig líf útlaga hefur verið á Íslandi gegnum aldirnar.
Megin kjarni þessa safns mun eiga rætur í sögu af Fjalla-Eyvindi þar sem ævi hans og Höllu verður gerð sérstök skil. Sérstakt rými verður útbúið fyrir lifandi flutning á leiksýningum og öðrum uppákomum sem tengjast söfnunum. Ætlað er að verslunar og veitingarekstur verði í sama húsnæði og safnið.
Að sögn Ragnars Magnússonar, oddvita Hrunamannahrepps, leyst sveitarstjórn mjög vel á hugmyndir Vesturports og samþykkti að leggja sitt af mörkum til að verkefnið geti orðið að veruleika. Sveitarstjórn fól sveitarstjóra og varaoddvita að ræða við Vesturport og hagsmunaaðila á svæðinu um framhald verkefnisins.
„Við viljum gjarnan sjá þetta verkefni verða að veruleika,“ sagði Ragnar í samtali við Sunnlenska. Eftir því sem næst verður komist hafa forsvarsmenn Vesturports nú þegar átt viðræður við eigendur húsanna í Gröf sem hýsa safn Emils Ásgeirssonar. Ekki er þó ljóst hvað verður gert við safnmuni núverandi byggðasafns ef af framkvæmdum verður. Að sögn Ragnars hefur ekki komið fram hver kostnaður við verkið geti orðið eða framkvæmdaáætlun um slíkt.