Eigendur jarðanna Guðnastaða og Butru í Austur-Landeyjum hafa í samvinnu við Arctic Hydro sótt um leyfi til Rangárþings eystra vegna áforma um að reisa vindorkuver.
Morgunblaðið greinir frá þessu.
Óskað var eftir leyfi til uppsetningar allt að 60 metra hás tilraunamasturs í landi Butru til mælinga á vindi. Einnig óskuðu eigendur Guðnastaða eftir því að hluti úr landi jarðarinnar yrði skilgreindur sem iðnaðarsvæði fyrir orkuvinnslu með vindmyllum.
Afgreiðslu erindanna var frestað, að því er fram kemur í fundargerð skipulagsnefndar Rangárþings eystra. Nefndin bókaði að Samorka og Samband íslenskra sveitarfélaga væru að vinna að framtíðarstefnu á landsvísu hvað varðaði nýtingu vindorku í landinu og eðlilegt væri að bíða eftir niðurstöðu úr þeirri vinnu.