Vilja sameiginlegan íþrótta- og æskulýðsfulltrúa

Áhugi er fyrir því hjá sveitarstjórnum í uppsveitum Árnessýslu að ráða sameiginlega íþrótta- og æskulýðsfulltrúa og auka samstarf í íþrótta- og félagsmálum ungra íbúa á svæðinu.

Fyrir eru þessi sveitarfélög í ýmsu samstarfi, t.a.m. í ferðaþjónustu og byggingar- og skipulagsmálum, auk annarra verkefna. Að sögn Jóns G. Valgeirssonar sveitarstjóra í Hrunamannahreppi gefur ný brú yfir Hvítá möguleika á enn frekara samstarfi á þessum vettvangi.

„Menn sjá t.d. fyrir sér aukna samvinnu í keppnisíþróttum og starfi félagsmiðstöðva,“ segir hann. Eftir því sem heimildir herma er unnið að gerð starfslýsingar og samstarfssamningi um stöðu íþrótta- og æskulýðsfulltrúa fyrir Grímsnes- og Grafningshrepp, Bláskógabyggð, Skeiða- og Gnúpverjahrepp og Hrunamannahrepp. Í framhaldinu verður slíkt samkomulag lagt fyrir sveitarstjórnir umræddra sveitarfélaga.

Auk þess hefur verið rætt um frekara samstarf ungmennafélaganna í þessum sveitarfélögum um að samnýta íþróttaaðstöðu og mannskap með það í huga að tefla fram keppnisliðum á landsvísu í nokkrum íþróttagreinum.

Fyrri greinStórleikur í Höfninni í kvöld
Næsta greinPrjónaperlur slá Arnaldi við