Vilja uppgröft og rannsóknir í Skálholti

Til greina kemur að ráðist verði í fornleifarannsóknir í Skálholti næsta sumar í kjölfar viðbragða við kenningu um að svokallaðir Lewis taflmenn hafi verið skornir út þar undir lok 12. aldar eða í upphafi þeirrar 13.

Eins og sagt hefur verið frá í fréttum hefur Guðmundur G. Þórarinsson, verkfræðingur og fyrrum varaþingmaður, kynnt niður­stöður rannsókna sinna á uppruna forngripa sem fundust á Lewis eyju vestur af Skotlandi fyrir um 180 árum. Hefur Guðmundur sett fram þá kenningu að gripirnir, sem þykja einhverjir þeir merkustu í safni breska þjóðminja­safnsins, hafi verið skornir út úr rostungstönnum, hugsanlega af Margréti Högu undir umsjón Páls Jónssonar sem var biskup í Skálholti 1195 til 1211.

Til þessa hefur verið talið að þeir hafi verið frá Þrándheimi í Noregi, útfrá því að álíka gripir hafa fundist þar.

Guðmundur sagði í samtali við Sunnlenska að þrátt fyrir að ýmsir hafi haft uppi efasemdir um kenningu sína væru fleiri að komast á sömu skoðun og hann og hafa ráðamenn erlendra safna sýnt málinu áhuga. Sömuleiðis sé áhugi á því að hefja uppgröft í Skálholti til að leita að sam­skonar munum sem tengja má við tafl­mennina, hvort sem um er að ræða sams­konar muni eða með DNA-rannsóknum.

Telur Guðmundur það vel mögulegt að leifar rostungstanna sé að finna á því svæði sem smiðja Páls biskups stóð eða í haugi þar í grennd.

Fyrri greinVeldur hreppnum tjóni
Næsta greinStefnt að aukinni starfsemi