Vilja upplýsingar um kostnað við uppsögnina

Flóaskóli. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sveitarstjóri Flóahrepps mun senda fimmtán íbúum hreppsins upplýsingar um kostnað sveitarfélagsins í tengslum við uppsögn og starfslokasamning Önnu Gretu Ólafsdóttur, fyrrverandi skólastjóra Flóaskóla.

Íbúarnir fimmtán sendu sveitarstjórn bréf sem var tekið fyrir á síðasta fundi hennar. Þar er óskað eftir því að bréfritararnir og aðrir íbúar Flóahrepps verði upplýstir um hvað uppsögn Önnu Gretu kostaði sveitarfélagið, en henni var sagt upp í apríl.

„Við óskum eftir því að allur kostnaður komi fram, þar með talin sú greiðsla sem Anna Greta Ólafsdóttir fékk fyrir að fara ekki í mál við sveitarfélagið, lögfræðikostnaður, samningur við Ingvar Sigurgeirsson ráðgjafa, auka fundarseta sveitarstjórnarmanna og fleira ef eitthvað er,“ segir í bréfinu.

Þá óskar hópurinn eftir því að Anna Greta verði hreinsuð af þeim ásökunum að hún hafi brotið af sér í starfi sem skólastjóri Flóaskóla.

Málinu lokið af hálfu sveitarstjórnar
Í bókun sveitarstjórnar kemur fram að hreppurinn og Anna Greta hafi gert með sér samkomulag varðandi starfslok hennar og að málinu sé lokið.

Sveitarstjóra var falið að senda bréfriturum upplýsingar um kostnað sveitarfélagsins við uppsögnina og starfslokasamninginn að svo miklu leiti sem lög leyfa. Ítrekað er að ástæður uppsagnar koma fram í uppsagnarbréfi sem er trúnaðarmál.

Á fundinum bókuðu Svanhvít Hermannsdóttir og Rósa Matthíasdóttir að áhöld væru um hvort umrætt samkomulag um starfslok sé trúnaðarmál. Æskilegt væri að fyrirspyrjendur færu með málið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Einnig var afgreitt á fundinum erindi frá Árna Hrólfssyni þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um innihald starfslokasamningsins og var sveitarstjóra falið að senda Árna upplýsingar um samkomulagið að svo miklu leiti sem lög leyfa.

Fyrri greinDramatík í Dalhúsum
Næsta greinUmferðartafir á Laugarvatnsvegi og Eyrarbakkavegi