Ellefu alþingismenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að fram fari fagleg úttekt á rekstri og reynslu af starfrækslu réttargeðdeildarinnar að Sogni í Ölfusi.
Fyrsti flutningsmaður er Björgvin G. Sigurðsson, fyrsti þingmaður Suðurlandskjördæmis. Tillagan gerir einnig ráð fyrir að metnir verði kostir og gallar þess að flytja starfsemina frá Sogni á Kleppsspítala út frá faglegum rökum. Þar til úttektin liggur fyrir verði flutningi stofnunarinnar frá Sogni á Kleppsspítala frestað.
Gert er ráð fyrir að velferðarráðherra skipi starfshóp til að framkvæma úttektina samkvæmt tilnefningum Geðverndar sem velji fulltrúa úr hópi gæslufólks á Sogni, Geðlæknafélags Íslands, Læknafélags Íslands og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Skal úttektinni lokið í maí 2012 og skilað til velferðarnefndar Alþingis og velferðarráðherra.
Stjórnendur Landspítalans tóku í haust ákvörðun um að loka Réttargeðdeildinni á Sogni og flytja sjúklingana á nýja deild á Kleppi.