Vilja vandræðagróðurinn burt

Þessa dagana stendur yfir hreinsunarátak í Sveitarfélaginu Árborg og eru lóðarhafar meðal annars hvattir til að klippa trjágreinar sem teygja sig út fyrir lóðarmörk og eru jafnvel til vandræða fyrir vegfarendur.

Dæmi eru um að trjágróður skyggi á umferðarmerki, götuheiti og jafnvel lýsingu og það vilja bæjaryfirvöld ekki sjá.

Í byggingarreglugerð segir að lóðarhafa sé skylt að halda vexti trjáa og runna á lóðinni innan lóðamarka. Sinni hann því ekki og þar sem vöxtur trjáa eða runna fer út fyrir lóðarmörk við götur, gangstíga eða opin svæði er veghaldara eða umráðamanni svæðis heimilt að fjarlægja þann hluta er truflun eða óprýði veldur, á kostnað lóðarhafa að undangenginni aðvörun.

Íbúar sveitarfélagsins voru hvattir til þess sama í haust og tóku þá margir til hendinni en hverfisráðið á Selfossi ítrekaði á síðasta fundi sínum að enn væri þörf á bragarbót í þessum efnum, bæði á lóðum í einkaeigu, en einnig lóðum í eigu sveitarfélagsins, stofnana, banka og sjóða.

Fyrri greinJafntefli í Egilshöll
Næsta greinHlupu frá Laugarvatni til Reykjavíkur