„Viljum gera betur fyrir bæjarbúa“

Fyrirhuguð viðbygging við Sundhöll Selfoss. Tölvumynd/Pro Ark

Eigendur World Class hyggjast bæta 400 fm viðbyggingu við núverandi húsakost stöðvarinnar í Sundhöll Selfoss og hefja framkvæmdir á þessu ári.

Rekstur stöðvarinnar hefur gengið vel frá því hún opnaði í janúar árið 2016 og nú er svo komið að núverandi húsnæði er að sprengja utan af sér starfsemina. 

„Það eru um 3.300 manns að æfa í World Class á Selfossi og á góðum dögum fáum við allt að 800 manns í stöðina. Þetta er ein af okkar stærstu stöðvum, það eru líklega 4-5 stærri í höfuðborginni en við rekum 15 stöðvar og um 7% viðskiptavina okkar eru á Selfossi,“ sagði Björn Leifsson, framkvæmdastjóri World Class í samtali við sunnlenska.is.

Þægileg og góð stækkun
„Bærinn er að stækka og þetta er vaxandi svæði og við viljum gera betur fyrir bæjarbúa. Núverandi aðstaða á efri hæð Sundhallarinnar er 800 fm en við stefnum á að byggja 400 fm við aðra hæðina, á súlum út yfir bílastæðið norðan við húsið. Þetta er þægileg og góð stækkun. Við munum sameina Hot Yoga og spinningsalina í einn sal og bæta við tveimur öðrum í viðbyggingunni þannig að þá verðum við komin með þrjá stóra og flotta sali. Síðan mun núverandi tækjasalur stækka um 250 fermetra,“ bætir Björn við.

Björn segir að ef allt gangi vel verði mögulegt að opna stærra World Class á Selfossi um næstu áramót.

„Ég leyfi mér alltaf að hafa bjartsýni með í pakkanum. Við erum búin að kynna þetta fyrir bæjarstjórn og þar var okkur tekið vel enda þýðir meiri umferð í stöðina auknar tekjur fyrir bæinn. Framkvæmdin fer væntanlega í grenndarkynningu sem tekur fjórar vikur og síðan getum við vonandi farið að byrja framkvæmdir af krafti,“ segir Björn að lokum.

Fyrri greinHellisheiði lokuð á morgun til vesturs
Næsta greinStórt tap gegn toppliðinu