![Öruggara Suðurland](https://www.sunnlenska.is/wp-content/uploads/2025/02/oruggara1-696x518.jpeg)
Forvarnarverkefnið Öruggara Suðurland varð formlega til á stofnfundi í Þorlákshöfn 18. apríl í fyrra þegar undirrituð var samstarfsyfirlýsing um forvarnir gegn ofbeldi og öðrum afbrotum.
Undir samstarfslýsinguna skrifuðu lögreglustjórinn á Suðurlandi, sem ber ábyrgð á verkefnastjórn, sýslumaður, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, skólameistarar framhaldsskólanna þriggja og allir sveitarstjórar í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi, alls fjórtán talsins. Á fundinum voru lagðar línur um það hvað skyldi leggja áherslu á í afbrotavörnum fyrsta starfsárið.
„Það er grundvallaratriði að við sem vinnum við afbrotavarnir vinnum saman á breiðum grunni en ekki sitt í hvoru lagi. Þannig geta ólíkar stofnanir, ríkis og sveitarfélaga og líka félagasamtök, lagt sín lóð á vogarskálarnar og náð betri yfirsýn yfir viðfangsefnið og meiri árangri,“ segir Arndís Soffía Sigurðardóttir, aðallögfræðingur hjá lögreglunni á Suðurlandi og verkefnastjóri Öruggara Suðurlands, í samtali við sunnlenska.is.
![](https://www.sunnlenska.is/wp-content/uploads/2025/02/oruggara4-1024x833.jpeg)
Verkefni í hraðri þróun
Á Instagram má finna Samfélagslöggur Suðurland en samfélagslöggan tilheyrir umræddu forvarnarverkefni.
„Samfélagslöggan leikur lykilhlutverk við að sinna fræðslumálum og forvarnarstarfi í öllum skólum umdæmisins, leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og í félagsmiðstöðvum,“ segir Arndís en samfélagslöggan flytur einnig fræðsluerindi fyrir fagfólk og félagasamtök. „Þar hafa dregið vagninn lögreglumenn sem brenna fyrir það að sinna forvarnarstarfi, sem getur auðvitað verið mjög gefandi og þakklátt en líka mikil áskorun.“
„Verkefni Samfélagslöggunnar hafa verið í hraðri þróun. Fastur liður í forvarnarstarfi er meðal annars að heimsækja alla grunnskólana umdæminu og einnig alla leikskóla, þar sem Lúlli löggubangsi er í stóru hlutverki og áherslan er á umferðarfræðslu.“
![](https://www.sunnlenska.is/wp-content/uploads/2025/02/oruggara3-965x1024.jpeg)
Arndís segir að samfélagslöggurnar séu einnig oft beðnar um að halda erindi sem eru áberandi í samfélagsumræðunni hverju sinni. „Þennan veturinn hefur ofbeldis- og áhættuhegðun ungmenna og vopnaburður verið áberandi, þá höfum við líka sinnt forvörnum gegn netsvindli fyrir eldra fólk.“
![](https://www.sunnlenska.is/wp-content/uploads/2025/02/oruggara2-979x1024.jpeg)
Eftirspurnin mikil
Arndís segir að viðtökurnar við verkefninu Öruggara Suðurland hafi verið góðar frá því að verkefnið var sett á laggirnar fyrir bráðum ári. „Ég finn að samráðsvettvangurinn er að eflast og þróast og við höfum beitt ýmsum þeim úrræðum sem við höfum til að tengjast fleiri samstarfsaðilum og vinna upplýsingar sem nýtast við afbrotavarnir.“
„Samfélagslöggurnar hafa fengið frábærar viðtökur og við finnum sterkt fyrir því að eftirspurnin eftir þeim er mikil. Við höfum lagt okkur fram um að reyna að bregðast við þessu ákalli en það kostar auðvitað mannafla. Fyrir áramótin barst embættinu svo sérstakur fjárstuðningur fyrir verkefni tengd samfélagslöggæslu og það var mjög mikilvægt fyrir framhaldið.“
Þátttaka foreldra mikilvæg
Arndís leggur áherslu á að verkefnið Öruggara Suðurland sé samstarfsverkefni og skiptir þátttaka foreldrar þar miklu máli. „Breið þátttaka við forvarnir er lykillinn að árangri og þar er þátttaka foreldra og forráðamanna engin undantekning.“
![](https://www.sunnlenska.is/wp-content/uploads/2025/02/ArndisSoffia-683x1024.jpg)
„Það er alltaf hægt að senda hugleiðingar, viðra áhyggjur, óska eftir fræðsluerindi eða koma með ábendingar til samfélagslöggunnar með því að senda tölvupóst á netfangið lsl.samfelagsloggur@logreglan.is og það er hægt að fylgjast með starfinu á Instagram.“
„Áhugi í samfélaginu á forvarnarstarfinu er mikill og hópurinn í Öruggara Suðurlandi og í samfélagslöggunni er bæði áræðinn og vinnusamur. Við viljum öll að forvarnarstarf skili árangri og að samfélagið sé öruggara fyrir okkur öll,“ segir Arndís Soffía að lokum.