Elín Einarsdóttir, oddviti Mýrdalshrepps, segist vona að ekki verði langt í að niðurstaða liggi fyrir varðandi umdeilt vegstæði hringvegarins í gegnum sveitarfélagið.
Hún treystir sér þó ekki til að nefna neinar dagsetningar í því sambandi. Sveitarstjórnin ákvað að taka vegstæðið út úr aðalskipulagi og samþykkja það þannig.
Að sögn Elínar var það mat sveitastjórnar að það væri nauðsynlegt enda málið verið til meðferðar í á annan áratug og brýnt að fá eitthvert virkt aðalskipulag til að styðjast við.
Elín segir að hún sjálf hafi ekki breytt afstöðu sinni með að hún telji Dyrhólaleiðina bestu leiðina og Vegagerðin hafi tekið undir það. ,,Við viljum hins vegar samvinnu um þetta en ekki togstreitu og vonumst til að ná því með að setja málið í þennan farveg.“
Elín sagði að skipulagsmál yrðu alltaf umdeild í hverju sveitarfélagi en nú væri brýnt að vinna að málinu í samræmi við rétta málsmeðferð.
Í þessum tillögum var gert ráð fyrir því að núverandi vegastæði hringvegarins verði fært suður fyrir þorpið í Vík og að vegurinn fari í göngum gegnum Reynisfjall og vestur norðan við Dyrhólaós, sunnan við Geitfjall í núverandi vegastæði hringvegarins, svokölluð leið 3.